Íslenski boltinn

Fabrizio Roma­no tjáir sig um vista­skipti Dags Dan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagur Dan og Fabrizio Romano.
Dagur Dan og Fabrizio Romano. Vísir/Diego

Fyrr í dag var greint frá því að Dagur Dan Þórhallsson, leikmaður Íslandsmeistara Breiðabliks í fótbolta, væri á leið til Orlando City í MLS-deildinni. Nú hefur hinn tilkynningaóði blaðamaður Fabrizio Romano tjáð sig um möguleg vistaskipti Dags Dan.

Greint frá því í hlaðvarpinu Dr. Football að Dagur Dan væri svo gott sem kominn með annan fótinn í sólina í Orlando. Mbl.is fékk það svo staðfest að samningaviðræður milli Orlando og Breiðabliks væru á lokastigi.

Dagur kom til Breiðabliks frá Fylki fyrir síðasta tímabil. Hann lék stórvel með Blikum í fyrra, í hinum ýmsu stöðum, og átti stóran þátt í að þeir urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í tólf ár. Dagur lék 25 leiki í Bestu deildinni og skoraði í þeim níu mörk. Dagur hefur leikið fjóra landsleiki, alla í vetur.

Fabrizio Romano er stjarna á veraldarvefnum. Hann kemur frá Ítalíu og virðist í dag sá sem er best að sér í félagaskiptum leikmanna. Frasi hans „Here we go“ er orðinn goðsagnakenndur en Romano notar hann aðeins þegar það er svo gott sem frágengið að leikmaður sé á leið í ákveðið lið.

Það er ekki enn komið „Here we go“ frá Romano en hann tísti í dag að Orlando City væri að festa kaup á tveimur leikmönnum. Ramiro Enrique frá Banfield í Argentínu og Dag Dan, miðjumann íslenska landsliðsins.

Orlando endaði í 7. sæti Austurdeildar MLS á síðasta tímabili og tapaði fyrir Montréal í 1. umferð úrslitakeppninnar. Dagur verður fyrsti Íslendingurinn sem leikur með Orlando sem er níu ára gamalt félag. Þekktustu leikmenn sem hafa spilað fyrir það eru Brasilíumaðurinn Kaká og Portúgalinn Nani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×