Handbolti

Fjórir íslenskir meðal fimmtíu bestu en þrír betri en Ómar

Sindri Sverrisson skrifar
Þrír af fimmtíu bestu handboltamönnum heims, Aron Pálmarsson, Ómar Ingi Magnússon og Bjarki Már Elísson, fengu fína hvíld í síðasta leik, sigrinum gegn Grænhöfðaeyjum á miðvikudag.
Þrír af fimmtíu bestu handboltamönnum heims, Aron Pálmarsson, Ómar Ingi Magnússon og Bjarki Már Elísson, fengu fína hvíld í síðasta leik, sigrinum gegn Grænhöfðaeyjum á miðvikudag. VÍSIR/VILHELM

Fjórir íslenskir handboltamenn eru á lista norsks sérfræðings yfir fimmtíu bestu handboltamenn heimsins í dag. Enginn þeirra þykir þó meðal þriggja bestu í heimi.

Stig Nygård, sérfræðingur TV 2 í Noregi um handbolta, hefur líkt og síðustu ár birt lista yfir 50 bestu leikmenn heims að hans mati. Eins og Nygård bendir á er verkefnið ærið og hann segir í það minnsta 30 leikmenn til viðbótar allt eins eiga heima á listanum.

Ómar Ingi Magnússon er efstur Íslendinga á listanum en hann er sá fjórði besti í heiminum í dag að mati Nygård, sem tekur fram að Ómar hafi síðustu tvö ár verið valinn íþróttamaður ársins á Íslandi.

Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem líkt og Ómar hefur farið á kostum með Magdeburg í Þýskalandi í vetur, er í 14. sæti á listanum.

Aron Pálmarsson, sem lengi þótti meðal allra bestu leikmanna heims, er núna í 35. sæti. Nygård bendir á að Aron, sem sé einn merkasti íþróttamaður Íslands, ljúki brátt hringnum eftir afar farsælan atvinnumannsferil og snúi heim til FH í sumar.

Bjarki Már Elísson er svo fjórði Íslendingurinn á listanum en hann varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar 2020-21 og aðeins átta mörkum frá því að endurtaka leikinn í fyrra, áður en hann fór svo frá Lemgo til ungverska stórliðsins Veszprém. Bjarki er svo kominn í baráttuna um markakóngstitilinn á yfirstandandi HM.

Efstur á listanum er Frakkinn Dika Mem sem leikur með Barcelona, en í næstefsta sæti er maðurinn sem Íslendingar þurfa að eiga við í kvöld – skærasta stjarna Svía – Jim Gottfridsson. Í þriðja sæti er svo Spánverjinn Alex Dujshebaev sem ekki á langt að sækja hæfileikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×