Skoðun

Öll vötn falla til Hafnar­fjarðar

Haraldur F. Gíslason skrifar

Það hefur lengi legið ljóst fyrir að löngu er orðið tímabært að stíga það skref að stilla af starfstíma leik- og grunnskóla. Kennarar á leikskólastiginu hafa undanfarin ár valið í of miklum mæli að kenna á grunnskólastiginu. Launin hafa verið nákvæmlega eins hjá leik- og grunnskólakennurum síðan 2014 en ólíkur starfstími hefur verið helsta ástæða þess hvers vegna flæðið á milli skólastiganna er kennurum á leikskólastiginu í óhag.

Hafnarfjarðarbær hefur nú fyrst allra sveitarfélaga stigið það skref að stilla af starfstíma leik- og grunnskóla í samvinnu kennara á leikskólastiginu og í samstarfi við Félag leikskólakennara. Hafa allir 17 leikskólar Hafnarfjarðarbæjar samþykkt tillögu þess efnis í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Félags leikskólakennara í skólunum. Markmiðið er að búa til aðlagandi starfsaðstæður fyrir kennara á leikskólastiginu, fjölga kennurum í leikskólum sveitarfélagsins, auka þar með fagmennsku og bæta gæði náms börnum til heilla. Í lögum 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er kveðið á um að 2/3 (67%) hlutar þeirra er sinna uppeldi og menntun í leikskólum eigi að hafa leyfisbréf kennara. Hlutfallið var 28% árið 2020 í leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögum og aðeins 19% í einkareknum leikskólum. Þessu vill Hafnarfjarðarbær breyta og er tilbúinn að stíga markviss skref svo það takist.

Í leikskólum Hafnarfjarðar var kosið meðal kennara um fulla styttingu eða 36 stundir á viku en viðvera verður áfram 40 stundir á viku yfir árið. 26 dagar á ári eru teknir út í svokölluðum „Betri vinnutíma í leikskólum“ um jól, páska, sumar og í vetrarfríi. Ávinnast þeir með uppsöfnun styttingar vinnuvikunnar og 3 dagar verða veittir til endurmenntunar. Skólaár í leik- og grunnskólum er því orðið sambærilegt hjá Hafnarfjarðarbæ. Betri vinnutími í leikskólum og nýtt skólaár hefur tekið gildi og fyrsta úttekt á „Betri vinnutíma í leikskóladögum“ var núna um jólin 2022.

Það er vert að hrósa Hafnarfjarðarbæ fyrir þá forystu sem sveitarfélagið hefur tekið í því að bæta starfsaðstæður kennara á leikskólastiginu. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni og hvort þetta skref muni fjölga leikskólakennurum í leikskólum sveitarfélagsins og jafna flæðið á milli skólastiganna.

Er það okkar von að önnur sveitarfélög fylgi í kjölfarið.

Höfundur er formaður Félags leikskólakennara.




Skoðun

Sjá meira


×