Innlent

Skerðing á Akureyri þar sem gengur illa að fá fólk til starfa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hildigunnur Svavarsdóttir er forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri.
Hildigunnur Svavarsdóttir er forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. Heilbrigðisráðuneytið

Vegna veikinda starfsfólks og skorts á heilbrigðisstarfsmönnum þarf að grípa til tímabundinnar skerðingar á starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri. Valkvæðum skurðaðgerðum verður fækkað tímabundið meðal annars til að létta á álagi á gjörgæsludeild. Þetta kemur fram í pistli Hildigunnar Svavarsdóttur forstjóra á vefsíðu stofnunarinnar.

„Það er von okkar að þessi aðgerð hafi ekki langvarandi áhrif en búast má við því að biðlistar lengist lítillega og eru þeir skjólstæðingar sem þetta snertir beðnir um að sýna því skilning,“ segir Hildigunnur.

Ástæðuna megi meðal annars rekja til óvenju mikilla veikinda starfsfólks síðustu vikur ásamt því að ekki hafi tekist að manna sem skyldi.

„Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar eftir heilbrigðisstarfsfólki gengur okkur illa að manna bæði fastar stöður og eins stöður til afleysinga og ljóst að skortur á heilbrigðisstarfsfólki hefur víðtæk áhrif. Þess má einnig geta að mikið hefur verið um innlagnir sjúklinga vegna hinna ýmsu öndunarfærasjúkdóma sem hafa verið í samfélaginu,“ segir Hildigunnur.

Veikindi starfsfólks og aukinn fjöldi innlagna hafi áhrif á starfsemina á öllum deildum sjúkrahússins.

„Við viljum þakka starfsfólki okkar sem með þrautseigju og dugnaði hefur tekist að halda starfseminni gangandi og sinna þeim sjúklingum sem þurfa á okkar þjónustu að halda þrátt fyrir aukið álag. Jafnframt viljum við hvetja fólk til þess að koma og starfa með okkur á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Með samstilltu átaki allra, heilbrigðiskerfisins sem og stofnana, þá tekst okkur að vinna með þessa stóru áskorun að manna nægilega vel í heilbrigðiskerfinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×