Lífið

Nanna úr Of Monsters and Men gefur út sitt fyrsta sóló lag

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Tónlistarkonan Nanna Bryndís gaf í dag út sitt fyrsta sóló lag.
Tónlistarkonan Nanna Bryndís gaf í dag út sitt fyrsta sóló lag. Angela Ricciardi

Tónlistarkonan Nanna Bryndís Hilmarsdóttir gaf í dag út sitt fyrsta sóló lag, Godzilla. Nanna hefur gert garðinn frægan með hljómsveitinni Of Monsters and Men en fetar nú nýjar slóðir með þessu verkefni.

„Godzilla varð til þegar ég var að dunda mér með gítarinn seint að vetrarkvöldi,“ segir Nanna. Hún segir innblásturinn að textanum hafa komið úr gömlu Godzilla myndunum.

„Ég fann einhverja tengingu þar og fann til með þessu risa skrímsli á skjánum. Þrátt fyrir að Godzilla rústi öllu í kringum sig fannst mér eins og það ætli sér ekki að vera vont og vilji einfaldlega fá að tilheyra þessum heimi.“

Hún segir lagið því fjalla um það að upplifa sjálfan sig eins og skrímsli og þá tilfinningu að eiga einhvern að þegar maður hefur sett allt á hvolf.

Lagið var tekið upp í húsi Nönnu í sveitinni. Þar ríkir mikil kyrrð sem veitir Nönnu mikinn innblástur.

„Ég, Bjarni Þór Jensson og Ragnar Þórhallsson settum upp pop-up stúdíó og eyddum þarna tíma saman í sveitinni. Markmiðið var að fanga hlýjuna og værðina og gleyma sér ekki um of í leit að fullkomnun,” segir Nanna.

Þóra Hilmarsdóttir leikstýrði tónlistarmyndbandinu við lagið sem var tekið upp í lok sumars. Myndbandið endurspeglar texta lagsins og fangar á næman hátt þá ljúfsáru tilfinningu að aftengjast hversdagsleikanum á fjölförnum stöðum.

Nanna Bryndís verður fyrsti viðmælandi í nýrri þáttaröð af Tónlistarmönnunum okkar sem hefja göngu sína á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×