Handbolti

Tók sér­stak­lega eftir betri líkams­tjáningu hjá stór­skyttunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valskonur réðu ekkert við Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur í leik ÍBV og Vals um síðustu helgi.
Valskonur réðu ekkert við Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur í leik ÍBV og Vals um síðustu helgi. Vísir/Hulda Margrét

Eyjakonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir átti sannkallaðan stórleik þegar ÍBV vann topplið Vals á Hlíðarenda í Olís deild kvenna. Hrafnhildur Hanna skoraði fjórtán mörk í leiknum og fékk að sjálfsögðu hrós í Seinni bylgjunni.

„Sigurður Bragason, þjálfari Eyjaliðsins, sagði í viðtalinu að hann hafði áhyggjur af því hvort Hrafnhildur Hanna gæti haldið áfram á því svakalega skriði sem hún var komin á fyrir áramót. Þá er ágætt að mæta bara á Hlíðarenda og skora fjórtán,“ sagði Svava Kristín Gretarsdóttir, umsjónarkona Seinni bylgjunnar.

„Hún var bara í ham. Ég held að hún sé bara komin í sitt besta stand. Hvernig hún fagnar, hvernig hún hleypur og hvernig hún kemur í árásirnar. Það er bara allt önnur holning á henni. Hún var frábær,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir, sérfræðingur Seinni bylgjunnar.

„Ég hef smá áhyggjur. Hún átti líka fjórtán eða fimmtán marka leik fyrir áramót. Svo kom næsti leikur á eftir og algjör skita. Ég vil sjá hana í næsta leik, kannski ekki endilega að skora fjórtán mörk en að ráða ríkjum í þeim leik líka. Þá erum við að tala saman,“ sagði Einar Jónsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar.

„Hún var klárlega að taka svona einn og einn leik og detta svo niður inn á milli fyrir áramót. Mér fannst munurinn á henni vera núna vera þessi líkamstjáning þegar hún hleypur til baka og fagnar. Þetta sá ég ekki eins mikið af hjá henni fyrir jól,“ sagði Sigurlaug.

Það má sjá umfjöllun um Hrafnhildi Hönnu hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Hrafnhildur Hanna með 14 mörk á Hlíðarenda



Fleiri fréttir

Sjá meira


×