Innlent

Kallar eftir við­horfs­breytingu og fagnar heimild vegna raf­vopna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglumenn eru í dag 760 en Fjölnir segir æskilegt að þeir væru um þúsund.
Lögreglumenn eru í dag 760 en Fjölnir segir æskilegt að þeir væru um þúsund. AÐSEND

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að viðhorfsbreytingar sé þörf til að lögregla fái meira svigrúm til að bregðast við nýjum veruleika. 

Hann felist meðal annars í auknum vopnaburði, alvarlegum líkamsárásum og áformum um hryðjuverk.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Fjölnir nefnir árásina í Bankastræti í þessu samhengi, þar sem þrír voru stungnir í árás hóps manna á skemmtistaðnum Bankastræti Club. Hann segir hörkuna hafa aukist og bendir á að lögreglan sé í dag skipuð ungi fólki með takmarkaða reynslu.

„Meðalaldur þeirra sem eru í almennu löggæslunni á höfuðborgarsvæðinu í dag er 27 ár og tími í starfi er að jafnaði þrjú ár. Af þessu hef ég áhyggjur,“ segir Fjölnir.

Hann fagnar ákvörðun dómsmálaráðherra að heimila notkun rafvopna og segir þau hafa mikinn fælingarmátt. Rannsóknir sýni að í 80 prósent tilvika dugi viðvörun lögreglumanns um notkun slíks vopns til að sá sem á að stöðva leggi frá sér vopn og gefist upp.

„Lögreglumenn eru sú stétt sem oftast slasast í starfi; eru til dæmis langt fyrir ofan það sem gerist í sjómennsku og byggingarvinnu. Ef rafvarnarvopn geta auðveldað að stöðva fólk sem er hættulegt er til mikils unnið. Og það er ekki svo að lögreglan muni beita þessu verkfæri daglega, til dæmis gagnvart friðsömum mótmælendum á Austurvelli.“

Fjölnir segist einnig fylgjandi því að lögregla fái auknar forvirkar rannsóknarheimildir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×