Umfjöllun: Þýskaland - Ísland 30-31 | Frábær endurkoma í Brimaborg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska vörnin var mjög sterk seinni hluta seinni hálfleiks.
Íslenska vörnin var mjög sterk seinni hluta seinni hálfleiks. getty/Martin Rose

Þrátt fyrir að lenda sex mörkum vann Ísland þýsku strákana hans Alfreðs Gíslasonar, 30-31, í vináttulandsleik í Brimaborg í dag.

Um miðjan seinni hálfleik stefndi ekkert í íslenskan sigur enda Þjóðverjar sex mörkum yfir, 23-17, og Íslendingar ekki búnir að skora í ellefu mínútur. En Ísland sneri dæminu sér í vil og vann síðustu fimmtán mínútur leiksins, 14-7, og leikinn, 30-31.

Óðinn Þór Ríkharðsson kom inn á eftir að Sigvaldi Guðjónsson hafði brennt af þremur færum í byrjun leiks. Óðinn klikkaði á fyrsta skotinu sínu en skoraði úr næstu átta og var markahæstur á vellinum. Stórkostleg frammistaða hjá leikmanni sem breimar hreinlega af sjálfstrausti.

Afþýðarinn Janus

Ómar Ingi Magnússon og Aron Pálmarsson skoruðu fimm mörk hvor og sá fyrrnefndi gaf einnig átta stoðsendingar. Janus Daði Smárason á mikið hrós skilið en hann kom inn og affrysti íslensku sóknina þegar hún var í klakaböndum. Selfyssingurinn skoraði þrjú mörk og opnaði hvað eftir annað fyrir samherja sína. Elliði Snær Viðarsson átti einnig kröftuga innkomu í vörnina.

Svo er það Björgvin Páll Gústavsson kom íslenska liðinu aftur inn í leikinn um miðjan seinni hálfleik. Hann varði níu skot, eða 36 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig, og skoraði að auki eitt mark.

Íslenska liðið byrjaði leikinn mun betur. Viktor Gísli Hallgrímsson varði fyrstu tvö skotin sem hann fékk á sig og Ísland komst í 0-3. En það reyndist skammgóður vermir.

Philipp Weber skoraði fjögur mörk fyrir Þýskaland.getty/Martin Rose

Eftir smá byrjunarörðugleika fóru Þjóðverjar að tæta íslensku vörnina í sig hvað eftir annað og skoruðu að vild.

Ómar Ingi jafnaði í 7-7 úr vítakasti en Þýskaland skoraði í kjölfarið fjögur mörk gegn einu og komst þremur mörkum yfir, 11-8. Vörn Íslendinga var engin fyrirstaða fyrir Þjóðverja sem skoruðu úr níu sóknum í röð eftir að þær þrjár fyrstu fóru í vaskinn.

Útilína íslenska liðsins dró vagninn framan af og þeir Aron, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi skoruðu fyrstu tíu mörk Íslands. Hornamenn liðsins klikkuðu á fyrstu fimm skotunum sínum, þar af Sigvaldi á þremur. Þetta reyndist dýrt því það munaði fjórum mörkum á liðunum í hálfleik, 18-14.

Ísland skoraði vissulega fjórtán mörk í fyrri hálfleik en sóknarleikurinn hefur oft verið betri. Íslenska liðið skoraði til að mynda aðeins tvö mörk eftir hraðaupphlaup gegn fjórum hjá Þýskalandi.

Sá slæmi, sá afleiti

Íslendingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti, skoruðu fyrstu þrjú mörk hans og minnkuðu muninn í eitt mark, 18-17. En þá kom afleitur kafli, slæmi kaflinn bölvaði. Íslenska liðið bullaði út í eitt í sókninni og það þýska refsaði hvað eftir annað. Og skyndilega var munurinn orðinn sex mörk, 23-17, og Íslendingum virtust allar bjargir bannaðar.

Svo var þó blessunarlega ekki. Ísland byrjaði á því að skora tvö mörk í yfirtölu og fékk smá golu í bakið en Þýskaland var samt fjórum mörkum yfir, 25-21, þegar ellefu mínútur voru eftir. Og þegar níu mínútur voru eftir munaði þremur mörkum, 26-23.

Jannik Kohlbacher sleppur úr gæslu Arnars Freys Arnarssonar.getty/Martin Rose

Björgvin Páll ýtti íslenska liðinu aftur af stað með tveimur vörslum í sömu sókninni og það skoraði fjögur af næstu fimm mörkum leiksins og jafnaði í 27-27. Janus skoraði jöfnunarmarkið en hann dró íslenska liðið að landi síðasta stundarfjórðunginn. Óðinn kom Íslandi svo yfir, 27-28, í fyrsta sinn síðan í upphafi leiks.

Þjóðverjar skoruðu næstu tvö mörk en Óðinn jafnaði og kom svo Íslendingum yfir, 29-30, með sínu áttunda marki. Í næstu sókn Þjóðverja töpuðu þeir boltanum. Íslendingar fóru í sókn og Janus bjó til dauðafæri fyrir Aron sem skoraði, 29-31.

Philipp Weber minnkaði muninn í 30-31 með kolólöglegu marki þegar rúm hálf mínúta var til leiksloka. Guðmundur Guðmundsson tók þá leikhlé og íslenska liðið hélt boltanum það sem eftir lifði leiks og fagnaði sigri, 30-31.

Breiddin til staðar

Sigur var sannarlega frábær niðurstaða eftir mikið mótlæti lengst af leiks. Guðmundur hefur eflaust um margt að hugsa fram að næsta leik á morgun en hann getur allavega treyst á að íslenska liðið gefst ekki svo glatt upp og hópurinn er breiður og góður. Það sýndi sig best á innkomu Óðins, Elliða og Janusar.

Strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar köstuðu frá sér unnum leik.getty/Martin Rose

Vörnin var mjög sterk síðustu tuttugu mínútur leiksins og Björgvin góður í markinu. Og í seinni hálfleik skoraði íslenska liðið svo átta mörk úr hröðum sóknum; eitthvað sem vantaði í fyrri hálfleik.

Ísland og Þýskaland mætast aftur á morgun, þá í Hannover klukkan 14:30.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira