Erlent

Enn gýs í Kilauea-fjalli á Havaí

Kjartan Kjartansson skrifar
Glóandi hraun í Halemaumau, toppgíg Kilauea á Havaí í gær.
Glóandi hraun í Halemaumau, toppgíg Kilauea á Havaí í gær. AP/Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna

Eldgos er hafið í toppgíg Kilauea-fjalls á Havaíeyjum innan við mánuði eftir að hraun hætti að renna þar og í stærri nágranna þess Mauna Loa. Tindurinn er fjarri mannabyggðum og er þeim ekki talin stafa hætta af gosinu.

Eldfjallaeftirlit Havaíeyja varð gossins fyrst vart á vefmyndavélum frá Halemaumau-gígnum á toppi eldfjallsins í gær. Bandaríska jarðfræðistofnunin hafði áður hækkað viðbúnaðarstig vegna Kilauea í ljósi kvikuhreyfinga undir fjallinu.

Kilauea er eitt virkasta eldfjall í heimi. Síðasta gos hófst í september árið 2021 og stóð í sextán mánuði. Því lauk á nær sama tíma og gosið í Mauna Loa, stærsta eldfjalli heims, fjaraði út. Um tveggja vikna skeið gaus í báðum fjöllum á sama tíma. Gestir í Eldfjallaþjóðgarði Havaí gátu þá séð hraun renna úr báðum fjöllum á sama tíma.

Gosið í Mauna Loa olli ekki skemmdum í mannabyggðum en hraun úr fjallinu fór næst um 2,7 kílómetra að stórri hraðbraut sem tengir austur- og vesturhluta Stóru eyju, stærstu eyju Havaíklasans.

AP-fréttastofan segir að vísindamenn fylgist grannt með báðum fjöllum en yfirleitt er goslokum ekki lýst formlega yfir fyrr en virkni hefur legið niður í þrjá mánuði. Óljóst er hvort og hvernig eldfjöllin tvö tengjast þannig að virkni í þeim stöðvaðist á sama tíma.


Tengdar fréttir

Stærsta eld­fjall jarðar byrjað að gjósa

Eldgos hófst í Mauna Loa, stærsta virka eldfjalli jarðar, á Havaí í nótt. Hraunrennsli er enn bundið við tind fjallsins og ógnar það ekki nærliggjandi byggð.

Eld­gosið ógnar sögu­legri lofts­lags­mæli­röð

Athuganastöð sem mælir styrk koltvísýrings á Mauna Loa á Havaí hefur verið stopp frá því að eldgos hófst í fjallinu fyrir rúmri viku. Mæliröðin þar er sú elsta samfellda um vaxandi styrk gróðurhúsalofttegundarinnar í lofthjúpi jarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×