Handbolti

Vinir Bjarka Más í öðrum landsliðum jafnósáttir við reglurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson á ferðinni með kórónuveirugrímuna á EM í Ungverjalandi í fyrra.
Bjarki Már Elísson á ferðinni með kórónuveirugrímuna á EM í Ungverjalandi í fyrra. Getty/Kolektiff Images

Það kom flatt upp á íslensku landsliðsmennina þegar þeir fréttu af ströngum kórónuveirureglum Alþjóða handboltasambandsins (IHF) á heimsmeistaramótinu sem hefst í næstu viku.

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska liðsins, sendi póst á IHF en það voru ekki mikil viðbrögð við því. Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson ræddi þetta mál við Svövu Kristínu Gretarsdóttur á blaðamannafundi íslenska liðsins í gær.

Íslenska liðið missti hvern leikmanninn á fætur öðrum í einangrun vegna Covid á Evrópumótinu í fyrra?

„Ég bjóst alls ekki við því. Ég átti ekki til orð þegar ég las þetta að það yrði fimm daga sóttkví,“ sagði Bjarki Már Elísson.

„Ég get líka sagt það að ég á marga vini í öðrum landsliðum og það vill þetta enginn. Ég skil ekki fyrir hvern þeir eru að gera þetta. Það er glórulaust að fara gegn reglum í löndunum sem eru að halda mótið,“ sagði Bjarki Már.

„Það var heimsmeistaramót í fótbolta í síðasta mánuði þar sem maður heyrði ekki einu orði minnst á þetta. Nú erum við að koma á HM í handbolta sem er hundrað sinnum minna og það eru allir að deyja úr áhyggjum yfir þessu,“ sagði Bjarki.

„Ég er orðlaus en ég vona að þeir breyti einhverju og ég vona að Bjöggi hafi haft einhver áhrif. Því miður þá eru þeir þrjóskir þarna og ég held að það breytist ekki neitt. Þetta er alveg fáránlegt,“ sagði Bjarki.

„Ég vona að það verði næg umræða og nógu mikill þrýstingur til þess að þetta verði dregið til baka,“ sagði Bjarki.

Hér fyrir neðan má sjá meira af viðtalinu við Bjarka.

Klippa: Viðtal við Bjarka Má um Covid-reglur á HM



Fleiri fréttir

Sjá meira


×