Sport

Hamlin vaknaður og spurði strax hvort liðið hefði unnið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Damar Hamlin er vaknaður eftir að hafa farið í hjartastopp.
Damar Hamlin er vaknaður eftir að hafa farið í hjartastopp. Ian Johnson/Icon Sportswire via Getty Images

Damar Hamlin, varnarmaður Buffalo Bills í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, er vaknaður eftir að hafa farið í hjartastopp í leik liðsins gegn Cincinnati Bengals á aðfaranótt þriðjudags. Hann getur tjáð sig með skrifum og spurði strax hvort sínir menn hefðu klárað leikinn með sigri.

Kaiir Elam, liðsfélagi Hamlin, birti færslu á Twitter-síðu sinni fyrr í dag þar sem hann greinir frá því að Hamlin sé vaknaður. Í færslunni segir hann að Hamlin sýni batamerki og biður fólk um að halda áfram að biðja fyrir honum.

Hamlin hné niður í fyrsta leikhluta í leik Buffalo Bills og Cincinnati Bengals á mánudagskvöld. Hamlin féll í grasið eftir þetta harkalegt samstuð við Tee Higgins, útherja Bengals, en stóð fljót upp aftur. Hann lagaði hjálminn sinn og virtist ætla að halda áfram leik þegar hann hné niður að nýju.

Sjúkraliðar og læknar hlupu inn á völlinn þegar ljóst var hversu alvarlegt ástand Hamlin var. Þeir reyndu lífgunartilraunir á vellinum í margar mínútur áður en Hamlin var fluttur með sjúkrabíl á Cincinnati Medical Center sjúkrahúsið og hefur legið þungt haldinn á gjörgæslu síðan þá.

Nú greina hins vegar hinir ýmsu miðlar frá því að Hamlin sé vaknaður og sýni batamerki. Á vef CNN kemur fram að Hamlin sé vakandi og geti haldið í hendur fjölskyldumeðlima sinna.

Aðrir miðlar segja einnig frá því að Hamlin geti tjáð sig með skrifum og að eitt af því fyrsta sem hann hafi spurt að eftir að hann vaknaði hafi verið hvort Bills liðið hafi unnið leikinn gegn Bengals. Þar sem leikurinn hefur ekki enn verið kláraður fékk hann ekki svar við þeirri spurningu, en læknarnir minntu hann á það að hann hafi unnið leikinn um lífið.

NFL

Tengdar fréttir

Hamlin sýnir framfarir en er ennþá á gjörgæsludeild

Buffalo Bills segja á Twitter-síðu sinni að Damar Hamlin hafi sýnt framfarir eftir að hafa farið í hjartastopp í leik liðsins aðfaranótt þriðjudags. Hann liggur enn þungt haldinn á gjörgæsludeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×