Erlent

Björgunar­af­rek þegar fjöl­skylda í Teslu steyptist fram af bjargi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aðstæður á vettvangi.
Aðstæður á vettvangi. Tayfun Coskun/Anadolu Agency via Getty Images

Ljóst er að björgunarafrek var unnið í Kaliforníu-ríki Bandaríkjanna í gær þegar Tesla með fjögurra manna fjölskyldu innanborðs steyptist fram af 76 metra háu þverhnípi niður í grýtta fjöru.

Tildrög slyssins eru óljós en ljóst er að bíllinn steyptist fram af þverhnípi við hinn svokallaða þjóðveg eitt í Kaliforníu-ríki, sem liggur með fram ströndinni við Kyrrahaf. Slysið átti sér stað skammt frá San Francisco borg.

Fjórir voru um borð í bílnum, tveir fullorðnir auk tveggja barna á aldrinum fjögurra og níu ára. Slökkvilið og lögregla komu að björgunaraðgerðum þar sem þyrlu var meðal annars beitt. Sjá má myndband frá vettvangi hér að neðan.

Björgunin heppnaðist giftusamlega við flóknar aðstæður en farþegar bílsins sluppu frá slysinu án lífshættulegra meiðsla. Þeir sem komu að slysinu segja það kraftaverk að farþegar bílsins hafi sloppið lifandi frá slysinu.

„Við komum hingað oft vegna bíla sem fara yfir bjargið og það er yfirleitt enginn sem kemst lífs af. Þetta var algjört kraftaverk,“ er haft eftir Brian Pottinger, slökkviliðsstjóra sem var einn að þeim sem kom að slysinu.

Slökkviliðsmenn voru látnir síga niður að bílnum og mikil gleði braust út þegar ljóst var að lífsmark var með þeim sem voru inn í honum. Börnin tvö hlutu smávægileg meiðsli en meiðsli hinna fullorðnu voru alvarlegri, þó ekki lífshættuleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×