Lífið

Al­var­lega slasaður eftir snjó­moksturs­slys

Atli Ísleifsson skrifar
Jeremy Renner hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna í tvígang.
Jeremy Renner hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna í tvígang. EPA

Bandaríski leikarinn Jeremy Renner er alvarlega slasaður eftir slys sem varð í tengslum við snjómokstur um liðna helgi.

Talsmaður leikarans staðfesti þetta í samtali við bandaríska fjölmiðla í nótt. „Við getum staðfest að ástand Jeremy er alvarlegt en stöðugt. Hann slasaðist við veðurtengt óhapp þegar hann var að moka snjó fyrr í dag,“ segir talsmaðurinn í samtali við Hollywood Reporter.

„Fjölskyldan er með honum og hann nýtur frábærrar meðferðar á sjúkahúsi.“

Deadline segir að Renner hafi verið fluttur á sjúkrahús með þyrlu frá heimili sínu nærri skíðafjallinu Rose-fjalli í Tahoe sem er í um hálftíma akstursfjarlægð frá Reno í Nevada.

Mikill hríðarbylur gekk yfir svæðið á gamlársdag og fór rafmagn af um 35 þúsund heimilum að sögn staðarblaðsins Reno Gazette-Journal.

Hinn 51 árs gamli Renner hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna í tvígang; fyrir hlutverk sín í myndunum Hurt Locker og The Town.

Hann er einnig þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk ofurhetjunnar Clint Barton, einnig þekktur sem Hawkeye, í Marvel-myndunum Hawkeye.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×