Handbolti

Þórir þjálfari ársins annað árið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson og Hjörtur Leó Guðjónsson skrifa
Þórir Hergeirsson er þjálfari ársins annað árið í röð.
Þórir Hergeirsson er þjálfari ársins annað árið í röð. EPA-EFE/CLAUS FISKER

Þórir Hergeirsson, þjálfari heims- og Evrópumeistara Noregs í handbolta kvenna, er þjálfari ársins 2022 á Íslandi. Frá þessu var greint á verðlaunahófi Samtaka íþróttafréttamanna í kvöld.

Þetta er annað árið í röð sem Þórir hlýtur þessa nafnbót. Á árinu gerði hann norska kvennalandsliðið að Evrópumeisturum í fimmta sinn. Síðan Þórir tók við norska liðinu 2008 hefur hann stýrt því til sigurs á níu stórmótum. Hann er sigursælasti landsliðsþjálfari handboltasögunnar.

Grímur Hergeirsson, bróðir Þóris, tók við verðlaununum fyrir hans hönd.Vísir/Hulda Margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta, var í 2. sæti í kjörinu. Undir hans stjórn urðu Valsmenn þrefaldir meistarar; unnu deild, bikar og Íslandsmeistaratitilinn og gerðu góða hluti í Evrópudeildinni.

Þórir fékk 138 atkvæði í kjörinu, 56 atkvæðum meira en Snorri Steinn. Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem gerði karlalið Breiðabliks að Íslandsmeisturum í fótbolta, og Guðmundur Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðsins í handbolta, fengu báðir 23 stig í kjörinu og voru jafnir í 3. sæti.

Þjálfari ársins 2022 – stigin

1.Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta – 138

2.Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta – 82

3.Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta – 23

Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta – 23

5. Pétur Pétursson, þjálfari kvennaliðs Vals í fótbolta – 7

6.Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í körfubolta – 4

7.Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í fótbolta – 1

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari karlaliðs Vals í körfubolta – 1

Alls tók 31 íþróttafréttamaður þátt í kjörinu og valdi hver og einn þrjá bestu þjálfara ársins að sínu mati. Fimm stig fengust fyrir efsta sæti, þrjú fyrir 2. sæti og eitt stig fyrir það þriðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×