Erlent

Bill Cosby íhugar endurkomu á nýju ári

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kona sakar Cosby um að hafa þvingað sig til kynferðislegra athafna á Playboy-setrinu þegar hún var sextán ára. Hún er nú 64 ára gömul.
Kona sakar Cosby um að hafa þvingað sig til kynferðislegra athafna á Playboy-setrinu þegar hún var sextán ára. Hún er nú 64 ára gömul. AP/Matt Rourke

Grínistinn umdeildi Bill Cosby íhugar að snúa aftur í sviðsljósið eftir að kynferðisbrotadómur yfir honum var ógiltur á síðasta ári. 

Cosby gaf endurkomu á nýju ári í skyn í útvarpsviðtali í dag. Blaðafulltrúi Cosby staðfesti einnig við miðilinn Hollywood Reporter að uppistand væri á dagskrá á nýju ári hjá Cosby.

Cosby, sem er 85 ára gamall, var dæmdur fyrir að hafa byrlað og kynferðislega misnotað Andreu Constand, sem var á þeim tíma starfsmaður Temple University, á heimili sínu. Hann var ákærður síðla árs 2015 og var handtekinn aðeins nokkrum dögum áður en 12 ára fyrningarfrestur glæpsins rann út. Í júní árið 2021 var dómur yfir honum ógiltur af hæstirétti Pensylvaníu vegna tæknilegs atriðis sem ekki taldist samræmast reglum dómstólanna í ríkinu.

Í mars 2022 ákvað Hæstiréttur Bandaríkjanna að taka málið ekki fyrir og batt því enda á tveggja áratuga baráttu innan dómskerfisins. Hann telst því saklaus þó orðspor hafi vissulega beðið hnekki.

Bill Cosby kom síðast fram víða um Bandaríkin árið 2015 með sýningu sem leiddi jafnframt af sér mótmæli eftir að tugir kvenna stigu fram og lýstu kynferðisofbeldi sem þær sögðu Cosby hafa beitt þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×