Innlent

Vegagerðin fundar með Samtökum ferðaþjónustunnar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Höfuðstöðvar Vegagerðarinnar.
Höfuðstöðvar Vegagerðarinnar. Vísir/Egill

Vegagerðin mun strax á nýju ári funda með Samtökum ferðaþjónustunnar til að fara yfir hvaða leiðir séu færar til að auka þjónustu við atvinnugreinina. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar. Þar segir að allt kapp sé lagt á að halda vegum opnum. Öll tæki hafi verið notuð til snjómoksturs og að starfsfólk Vegagerðarinnar hafi unnnið frá morgni til kvölds alla hátíðardaga.

„Markmið Vegagerðarinnar er að halda vegum opnum eins og kostur er en loka ef öryggi fólks er ekki tryggt og til að koma í veg fyrir slys. Ef lokað er of seint eykur það hættu á að bílar festist og lengri tíma tekur að opna að nýju. Vegagerðin hefur skilning á þörfum ferðaþjónustunnar og mun strax á nýju ári funda með Samtökum ferðaþjónustunnar til að fara yfir hvaða leiðir eru færar til að auka þjónustu við þessa mikilvægu atvinnugrein,“ segir í tilkynningu.

Vegur milli Víkur og Hvolsvallar var opinn í gærmorgun, 27. desember. „Verr gekk að opna veginn um Mýrdalssand en seinnipartinn í gær hófst fylgdarakstur milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs svo umferð kæmist í gegnum þetta svæði.“

Hringvegurinn er opinn sem stendur og unnið er að því að ryðja snjó fjær vegum til að auka líkur á því að halda vegum opnum ef veður skyldi versna. Vegagerðin minnir vegfarendur að fylgjast vel með færð á vegum á umferdin.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×