Erlent

56 látnir í kuldakastinu í Norður-Ameríku

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Nágrannar í Buffalo hlýja sér við opin eld eftir að hafa hjálpast að við að moka snjó.
Nágrannar í Buffalo hlýja sér við opin eld eftir að hafa hjálpast að við að moka snjó. AP/Carolyn Thompson

Að minnsta kosti 28 hafa látið lífið í vesturhluta New York ríkis í óveðrinu sem gengið hefur yfir stóran hluta Bandaríkjanna. Dæmi eru um að fólk hafi verið fast í bílum sínum í rúma tvo sólarhringa.

Veðurfræðingar segja að ekkert lát sé á og spá 23 sentimetrum af jafnföllnum snjó til viðbótar í New York ríki í dag. 

Allt í allt er talið að 56 hafi látið lífið í óveðrinu sem náð hefur frá Mexíkó í suðri og til Kanada í norðri. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur gefið út yfirlýsingu um neyðarástand í New York, ríki sem gerir björgunaraðilum kleift að nálgast fjármagn frá alríkinu. „Hjarta mitt er hjá þeim sem hafa misst ástvini sína þessa hátíðarhelgi,“ tísti forsetinn.

Margir hinna látnu dóu úr ofreynslu við að moka snjó og sumir fundust einfaldlega látnir í bílum sínum sem hafði snjóað inni. 

Búist er við því að björgunarfólk eigi eftir að finna fleiri lík en erfiðlega hefur gengið að komast inn á fáfarnari vegi og að húsum í dreifbýli. 

Dauðsföll sem tengd eru veðrinu hafa einnig verið tilkynnt í sex öðrum ríkjum og mesti kuldinn hefur verið í Montana, þar sem frostið fór í mínur 45 gráður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×