Handbolti

Var sendur frá Peking með engum fyrirvara og horfði á Póllandsleikinn á flugvelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Metsöluhöfundurinn Bjarni Fritzson var með íslenska handboltalandsliðinu hluta af Ólympíuleikunum í Peking.
Metsöluhöfundurinn Bjarni Fritzson var með íslenska handboltalandsliðinu hluta af Ólympíuleikunum í Peking. vísir/vilhelm

Bjarni Fritzson var sendur burt af Ólympíuleikunum í Peking 2008 með nánast engum fyrirvara. Hann fylgdist með einum fræknasta sigri íslenska handboltalandsliðsins á flugvelli í Þýskalandi.

Bjarni var gestur fimmta þáttar Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttaraðar Stefáns Árna Pálssonar um framgöngu íslenska silfurliðsins í handbolta á Ólympíuleikunum í Peking.

Bjarni var fimmtándi maður í íslenska hópnum og spilaði ekki mínútu í Peking. Hann mátti ekki gista í Ólympíuþorpinu og þurfti að vera farinn þaðan á kvöldin. Hann var svo sendur heim áður en útsláttarkeppnin hófst, fyrir leikinn gegn Póllandi í átta liða úrslitum.

„Þegar við vorum búnir að vera þarna í einhvern tíma kom í ljós að ég þyrfti að fara heim því vegabréfsáritunin mín, fyrir þetta hlutverk sem ég var í, myndi renna út eftir átta liða úrslitin,“ sagði Bjarni í þættinum. „Þannig ég þurfti að fara. Ég horfði á Pólverjaleikinn í góðum félagsskap í Þýskalandi, í millilendingu.“

Bjarni kveðst eðlilega svekktur að hafa misst af leikjunum þremur í útsláttarkeppninni á Ólympíuleikunum.

„Það var glatað. Ég fer ekkert í grafgötur með það. Það var glatað,“ sagði Bjarni sem viðurkennir að fyrst um sinn hafi verið skringilegt að fylgjast með leikjum Íslands úr fjarlægð, eftir að hafa verið hluti af hópnum nær allt sumarið. 

„Það var smá skrítið fyrst. En svo kom ég bara með þetta hugarfar sem ég var alltaf með í þessu. Ég hef alltaf reynt að nálgast allt sem ég geri svona. Ég tók geggjað mikið jákvætt út úr þessu, þú lærðir ógeðslega mikið og þetta var reynsla og upplifun,“ sagði Bjarni.

Hlusta má á fimmta þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×