Innlent

Björgunar­sveitir fluttu líf­færi, krabba­meins­sjúk­ling, ó­fríska konu og lyf fyrir lang­veikt barn

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að frá 17. desember hafi verið skráðar 83 aðgerðir sem 633 félagar björgunarsveita tóku þátt í, frá 63 björgunarsveitum.
Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að frá 17. desember hafi verið skráðar 83 aðgerðir sem 633 félagar björgunarsveita tóku þátt í, frá 63 björgunarsveitum. Vísir/Vilhelm

Mikið hefur mætt á björgunarsveitum landsins síðustu daga vegna óveðurs og ófærðar. Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að frá 17. desember hafi verið skráðar 83 aðgerðir sem 633 félagar björgunarsveita tóku þátt í, frá 63 björgunarsveitum. Meðal verkefna voru líffæraflutningur, flutningur krabbameinssjúklings til læknis og flutningur á lyfjum fyrir langveikt barn.

Í tilkynningunni segir að notast hafi verið við 163 björgunartæki síðustu daga, langmest breyttir jeppar og snjóbílar, en einnig stærri trukkar. Áætlað er að á fimmta þúsund manns hafi verið aðstoðaðir með beinum eða óbeinum hætti þessa daga. 

„Á Grindavíkurvegi voru 1.200 manns komið til aðstoðar og hjálpað í skjól, um 1.500 manns voru aðstoðaðir í Reykjanesbæ auk þess sem um 2.000 farþegar sem voru strandaglópar í Leifsstöð. Björgunarsveitir sinntu líka því mikilvæga verkefni að koma því starfsfólki til vinnu sem brýn þörf var á að kæmust, svo sem heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk viðbragðs aðila. Fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar víða,“ segir í tilkynningunni.

Nokkur verkefni sem björgunarsveitir leystu um helgina og ekki hafa komist í hámæli eru tiltekin, meðal annars:

  • Björgunarsveit flutti krabbameinssjúkling til læknis svo meðferð viðkomandi héldist.
  • Björgunarsveit flutti lyf fyrir langveikt barn sem var orðið uppiskroppa.
  • Björgunarsveit flutti einstakling í aðgerð sem hafði verið undirbúin með lyfjagjöf og gat ekki beðið.
  • Björgunarsveit flutti Insulin lyf til einstaklings í Leifsstöð, sem var orðinn uppiskroppa og stefndi í óefni.
  • Björgunarsveit flutti ófríska konu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem vegna áhættu meðgöngu gat ekki beðið lengur.
  • Björgunarsveit flutti líffæri sem var að koma að utan á Landsspítala fyrir sjúkling sem var á leið í aðgerð.
  • Björgunarsveitir aðstoðuðu við flutning aðfanga fyrir fjölmörg fyrirtæki þar sem hætta var á alvarlegum rekstrartruflunum með miklum áhrifum.

Fjöldi aðstoðarbeiðna undanfarinna daga var slíkur að nauðsynlegt var að forgangsraða þeim með tilliti til alvarleika og mikilvægis, eftir því sem fram kemur í tilkynningu Landsbjargar.


Tengdar fréttir

Farið að reyna á þolin­mæðina á fjórða degi ó­færðar

Íbúi í efri byggðum Reykjavíkur er mjög gagnrýninn á snjómokstur borgarinnar. Farið sé að reyna á þolinmæðina á fjórða degi ófærðar í hverfinu sem hann býr í. Telur hann ólíklegra að sjá snjóruðningstæki en geirfugl á lykilgötu hverfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×