Skoðun

Búbblur og böl

Kristjana Björg Sveinsdóttir skrifar

Á undanförnum árum hafa viðburðir þar sem áfengi er haft um hönd færst í aukana og áfengir drykkir nú töluvert oftar í boði og einnig við fleiri tækifæri en áður tíðkaðist. Nýleg dæmi um slíka viðburði eru konukvöld í ýmsum verslunum þar sem boðið er upp á vín yfir gylliboðum, tilboðum og skemmtunum. Nýjasta æðið í þessari menningu eru búbblurnar, en nú er afar vinsælt að tala um freyðivín sem búbblur og virðast þær orðnar nokkuð ómissandi á mörgum viðburðum. Það mætti klárlega segja að áfengisnotkun sé sett á ákveðinn stall í íslensku samfélagi og þá fer oft mun minna fyrir umræðunni um skaðsemi áfengis. Þessi áhersla á drykkju áfengra veiga stingur verulega í stúf við aukningu á alvarlegum afleiðingum áfengisneyslu á einstaklinga með tilheyrandi hörmungum fyrir samfélagið allt.

Samkvæmt fréttabréfi Landlæknis um heilbrigðisupplýsingar frá árinu 2020 stundaði tæplega fjórðungur Íslendinga svokallaða áhættudrykkju. Að sama skapi hefur heildardrykkja aukist verulega eftir 1989 og í raun tvöfaldast. Rannsóknir sýna einnig að skaðleg áhrif áfengis eru tengd yfir 200 sjúkdómum og slysum/áverkum. Neikvæðar birtingarmyndir ofneyslu áfengis og annarra vímuefna í samfélaginu eru því miður æði fjölbreyttar. Þannig má rekja 48% allra banaslysa og 28% allra umferðarslysa í umferðinni til ölvunar. 51% sem komu á bráðamóttöku LSH um helgar voru undir áhrifum hugbreytandi efna og 13,5 % af öllum dauðsföllum fólks á aldrinum 20-39 ára má rekja til áfengisneyslu. Dæmin um skaðsemi neyslu áfengis í samfélaginu eru enn fleiri því miður.Fyrir utan neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar veldur ofnotkun áfengis einnig miklu félagslegu og efnahagslegu tjóni í samfélaginu.Ótal rannsóknir staðfesta tengsl áfengisneyslu við marga alvarlega sjúkdóma en til að mynda hefur neysla áfengis verið tengd beint við áhættu á mörgum mismunandi tegundum krabbameina. Þá er einnig vitað að skorpulifur hefur aukist á Íslandi að meðaltali um 10% árlega á undanförnum áratugum. Það er vissulega sorglegt að með aukinni þekkingu á skaðsemi áfengis skuli áfengisneysla vaxa eins og faraldur með samsvarandi aukningu sjúkdóma sem orsakast af drykkju. Staðreyndin er sú að áfengi drepur um 3 milljónir manna á heimsvísu á hverju ári og er ein helsta ógnin við heilsu almennings um allan heim. Það liggur því beint við að spyrja hvort það geti verið að við sem samfélag séum hugsanlega að taka einhverjar rangar ákvarðanir í sambandi við stefnu í áfengismálum? Það er auðvitað afskaplega jákvætt hvað viðtölum við ungt fólk hefur fjölgað sem hefur ákveðið að lifa áfengislausum lífsstíl og sannarlega mikilvæg skref í að breyta “norminu” um að áfengi sé ómissandi, en betur má ef duga skal. Að fagna og lyfta glasi í góðra vina hópi er afskaplega gefandi og gaman svo lengi sem það skaðar ekki okkur sjálf eða aðra í kringum okkur. Málið er þó flóknara en svo og þarna koma genavísindin til sögunnar því bakkus fer ekki í manngreinaalit. Það er sorgleg staðreynd að stór hluti þjóðarinnar er með heilasjúkdóm sem heitir alkóhólismi og veldur því að fólk ræður ekki við að drekka áfengi. Annar stór hluti þjóðarinnar veit ekki sjálft eða ber ekki sjálft kennsl á að það er haldið þessum sjúkdómi. Þekkingin er til staðar en afneitunin er sterkari enda er það eitt einkenni sjúkdómsins. Þegar öllu er á botninn hvolft myndi það sennilega ekki skaða að staldra aðeins við og spyrja “Þarf alltaf að vera áfengi?”

Höfundur er kennari og lýðheilsufræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×