Erlent

„Síðasta prinsessa Havaí“ er látin

Bjarki Sigurðsson skrifar
Kawananakoa árið 2019.
Kawananakoa árið 2019. AP/Jennifer Sinco Kelleher

Abigail Kinoiki Kekaulike Kawānanakoa, oft þekkt sem „síðasta prinsessa Havaí“, er látin, 96 ára að aldri. Ekki hefur verið gefið út hver dánarorsök hennar var. 

Kawananakoa, einnig kölluð Kekau, var síðasti þekkti ættingi konungsfjölskyldunnar á Havaí. Afi hennar var þriðji í krúnuröðinni á eyjunum áður en konungsveldið var lagt niður árið 1893.

Kekau fæddist árið 1926 í borginni Honolulu á eyjunni O'ahu. Hún bjó í Havaí mest alla ævi sína en hún stundaði einnig nám í bæði Shanghæ og Kaliforníu. 

Auðæfi Kekau eru metin á um 215 milljónir dollara, rúma þrjátíu milljarða íslenskra króna. Mest allur auður hennar kom frá langafa hennar, James Campbell, sem var írskur sykurekrueigandi. Dóttir Campell giftist havaíska prinsinum David Kawānanakoa og var Kekau barnabarn þeirra. 

Eiginkona Kekau greindi frá andláti hennar í dag en hún lést á heimili þeirra, Iolani-höllinni í Honolulu. Höllin er eina konungshöllin í Bandaríkjunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×