Bíó og sjónvarp

Tón­list Hildar úr Tár úti­­­lokuð frá Óskarnum en annað verk hennar talið lík­­legt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hildur varð fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaunin þegar hún fór heim með styttuna góðu fyrir tónlistina í kvikmyndinni Jókerinn.
Hildur varð fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaunin þegar hún fór heim með styttuna góðu fyrir tónlistina í kvikmyndinni Jókerinn. Kevin Winter/Getty Images

Útilokað er að tónskáldið Hildur Guðnadóttir verði tilnefnd tvisvar í sama flokknum til Óskarsverðlauna á næsta ári eins og áður var talið mögulegt. Tónlist hennar úr myndinni Tár kemur ekki til greina. Þó er talið er líklegt að Hildur verði tilnefnd fyrir tónlistina í myndinni Women Talking.

Variety greindi frá því í gær að tónlist Hildar úr myndinni Tár hafi verið útilokuð frá tilnefningu í flokknum besta frumsamda kvikmyndatónlistin, flokknum sem Hildur vann árið á Óskarsverðlaunum fyrir árið 2019 fyrir tónlist hennar í myndinni Joker.

Ekki nógu frumsamin

Samkvæmt heimildum Variety þykir tónlist Hildar úr myndinni ekki vera nógu frumsamin, það er að tónlistinni hafi verið blandað of mikið saman við áður útgefin verk og geti þar með ekki talist gjaldgeng í þessum flokki. Segir jafn framt að útilokunin komi ekki á óvart, þar sem að þessu hafi veri spáð.

Ástralska stórleikkonan Cate Blanchett leikur aðalhlutverkið í Tár. Þar leikur hún hlutverk hljómsveitarstjóra sem undirbýr sig fyrir tónleika þar sem tónlist Gustav Mahler og Edward Elgar er í aðalhlutverki.

Athygli vekur að ekki er langt síðan Variety birti grein þar sem því var spáð að tónlist Hildar úr myndinni Tár myndi teljast gjaldgeng og að sá möguleiki væri fyrir hendi að Hildur gæti brotið enn eitt blaðið í sögu Óskarsverðlaunanna með því að verða fyrsta konan til að hljóta tvær óskarstilnefningar í flokki frumsamdar kvikmyndatónlistar. Þar kom fram að framleiðandi myndarinnar myndi senda inn tónlist Hildar til tilnefningar til Óskarsverðlauna.

Í frétt Variety kemur hins vegar fram, sem fyrr segir, að tónlistardeild bandarísku Kvikmyndaakademíunnar hafi útilokað tónlist Hildar úr Tár af fyrrgreindum ástæðum.

Tónlistin úr Women Talking talin líkleg

Þar kemur einnig fram að Hildur þurfi þó ekki að örvænta vegna þess. Fastlega sé gert ráð fyrir að tónlist hennar úr kvikmyndinni Women Talking muni í það minnsta komast í gegnum niðurskurð akademíunnar áður en að endanlegar tilnefningar verða tilkynntar. Í flokki frumsamdar tónlistar verður skorið niður úr 147 tilnefningum niður í fimmtán. Úr þessum fimmtán verða fimm fyrir valinu sem hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Tilkynnt var í gær að tónlist Hildar úr Women Talking hafi verið tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna í flokki frumsamdar tónlistar. Verðlaunin verða veitt þann 11. janúar á nýju ári. Litið er á Golden Globe-verðlaunin sem ákveðna vísbendingu um við hverju megi búast á Óskarsverðlaununum næstkomandi mars.


Tengdar fréttir

Hildur Guðna orðuð við Óskars­verð­laun

Kvikmyndin Tár var í dag frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Cate Blanchett fer með aðalhlutverk myndarinnar og samdi Hildur Guðnadóttir tónlistina. Hildur er sögð líkleg til að vinna Óskarsverðlaun fyrir myndina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.