Handbolti

Viktor Gísli kosinn efni­legasti mark­vörður heims

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli í leik með íslenska landsliðinu.
Viktor Gísli í leik með íslenska landsliðinu. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson var í dag valinn efnilegasti markvörður heims af vefnum Handball Planet. Þá var hann í þriðja sæti yfir efnilegustu leikmenn í heimi, sama hvar þeir spila á vellinum.

Viktor Gísli hefur farið mikinn með Nantes í Frakklandi undanfarnar vikur. Svo vel hefur hann spilað að stuðningsfólk þýska stórveldisins Kiel vill fá hann í sínar raðir. Viktor Gísli varð fyrir því óláni að meiðast lítillega á dögunum en ætti að vera orðinn góður þegar HM í handbolta hefst 12. janúar næstkomandi.

Handball Planet byggir einkunnagjöf sína á kosningu sem og stigagjöf dómara. Viktor Gísli var töluvert á eftir Abdelrahman Mohamed sem leikur með Al Ahly í Egyptalandi en dómnefnd Handball Planet var einróma í ákvörðun sinni. Viktor Gísli var talinn bestur og fékk fyrir það átta stig ásamt því að fá þrjú stig fyrir að vera í öðru sæti yfir fjölda atkvæða.

Viktor Gísli fékk því samtals 11 stig og endaði fyrir ofan Mohamed sem endaði með 10 stig, fimm fyrir að vinna kosninguna og fimm frá dómnefnd. Þar á eftir komu Dominik Kuzmanović sem spilar með RK Nexe í Króatíu og Miljan Vujovic sem spilar með Stuttgart í Þýskalandi.

Stigin 11 sem Viktor Gísli fékk gera það að verkum að hann endaði í þriðja sæti yfir efnilegustu leikmenn heims. Sá efnilegasti að þessu sinni er sænska skyttan í liði Kiel, Eric Johannsson. Þar á eftir kom Portúgalinn Francisco Mota en hann spilar hægra horn hjá Sporting í heimalandinu.

Ekki amalegt fyrir hinn 22 ára gamla Viktor Gísla að landa slíkum verðlaunum í aðdraganda HM. Nú er bara að staðfesta endanlega fyrir umheiminum hversu góður hann er með góðri frammistöðu á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×