Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Fram 32-30 | Þriðji heimasigur Selfyssinga

Andri Már Eggertsson skrifar
Ír - Selfoss Olis deild Haust 2022
Ír - Selfoss Olis deild Haust 2022

Selfoss vann tveggja marka sigur á Fram 32-30. Selfoss byrjaði seinni hálfleik betur og á lokamínútunum skellti Vilius Rasimas, markmaður Selfyssinga, í lás. 

Fram byrjaði á að sýna dauðafærunum afar mikla óvirðingu. Stefán Darri Þórsson, leikmaður Fram, klikkaði á tveimur vítum í fyrstu tveimur sóknum gestanna. Elvar Elí Hallgrímsson, línumaður Selfyssinga gerði fyrstu þrjú mörk heimamanna og Guðmundur Hólmar Helgason átti allar þrjár stoðsendingarnar. Selfoss byrjaði betur og komst þremur mörkum yfir eftir tíu mínútur 6-3.

Fram fékk haug af vítum í fyrri hálfleik en nýtti þau ekki vel. Fram fékk sjö víti og klikkaði á þremur. Eftir að hafa lent þremur mörkum undir náðu gestirnir að jafna leikinn um miðjan fyrri hálfleik og eftir það skiptust liðin á mörkum.

Lárus Helgi Ólafsson, markmaður Fram, var ekki að finna sig milli stanganna í fyrri hálfleik og Arnór Máni Daðason mætti í markið og byrjaði á að verja fyrstu tvö skot Selfyssinga. Arnór Máni varði fimm skot í fyrri hálfleik og var með 50 prósent markvörslu. Staðan í hálfleik var 14-14.

Líkt og í fyrri hálfleik byrjaði Selfoss seinni hálfleik betur. Heimamenn tóku frumkvæðið í seinni hálfleik og komust fjórum mörkum yfir 20-16. Einar Jónsson, þjálfari Fram, greip þá í taumana og tók leikhlé.

Eftir erfiða byrjun í seinni hálfleik var Fram alltaf að elta skottið á Selfyssingum sem komust mest fjórum mörkum yfir 27-23 þegar tólf mínútur voru eftir. Fram minnkaði mun Selfoss minnst niður í tvö mörk en þá kom léleg ákvörðun hjá gestunum og Selfoss refsaði.

Þrátt fyrir að Fram tókst að gera síðustu tvö mörkin í leiknum vann Selfoss tveggja marka sigur 32-30.

Af hverju vann Selfoss?

Ólíkt Fram þá fékk Selfoss markvörslu og ofan á það klikkaði Fram á töluvert fleiri dauðafærum, Staðan var jöfn í hálfleik en í seinni hálfleik byrjaði Selfoss betur og um miðjan seinni hálfleik komust heimamenn fjórum mörkum yfir og héldu leikinn út. 

Hverjir stóðu upp úr?

Vilius Rasimas, markmaður Selfyssinga, fór á kostum og varði 18 skot og endaði með 39 prósent markvörslu. Vilius varði einnig tvö víti.

Guðmundur Hólmar Helgason var markahæstur með sjö mörk og voru nokkur mörk á ansi mikilvægu augnabliki í leiknum þegar Fram hótaði endurkomu.

Hvað gekk illa?

Fram fékk tíu víti í leiknum en klikkaði á fjórum sem er allt of mikið. Fram fór einnig illa með þó nokkur dauðafæri sem var dýrt.

Fram fékk afar litla markvörslu. Lárus Helgi Ólafsson varði aðeins fjögur skot og endaði með 20 prósent markvörslu.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik í 16-liða úrslitum bikarsins næstu helgi. Þetta var hins vegar síðasti leikurinn fyrir áramót í Olís deildinni.

Selfoss mætir Haukum sunnudaginn 5. febrúar klukkan 19:30 í Set-höllinni.

Mánudaginn 6. febrúar mætast Afturelding og Fram klukkan 19:30.

Einar: Myndi hafa meiri áhyggjur ef við værum ekki að skapa okkur öll þessi færi

Einar Jónsson var svekktur eftir leikVísir/Hulda Margrét

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var svekktur eftir tap kvöldsins.

„Við byrjuðum seinni hálfleik ekki vel. Við ræddum það í hálfleik að það væri skandall að við værum ekki 4-5 mörkum yfir í hálfleik en við vorum tveimur færri í upphafi síðari hálfleiks sem þeir nýttu sér og við náðum aldrei að brúa bilið,“ sagði Einar Jónsson og hélt áfram.

„Við fengum litla markvörslu og það segir sig sjálft að það er helvíti erfitt að vinna þegar við fáum á okkur yfir 32 mörk í nánast öllum leikjum. Deildin er mjög jöfn og öll lið geta unnið alla fyrir utan Val mögulega. Í kvöld brenndum við af fjórum vítum og við höfum verið að fara illa með vítin okkar í öllum leikjum sem gerir okkur erfiðara fyrir en það er stutt á milli í þessu.“

Einar var ánægður með að hans lið var að koma sér í mikið af dauðafærum en á móti hundfúll með að hafa ekki nýtt þau betur í tveggja marka tapi.

„Ég held við höfum fengið flest vítin í deildinni og erum með lélegust vítanýtinguna sem er tölfræði sem gengur ekki upp. Við erum með flesta stolna bolta, erum að skora mikið úr hraðaupphlaupum svo koma aðrir tölfræðiþættir sem við erum hvað lélegastir í deildinni í.“

„Það væri meiri örvænting í manni ef við værum í þvílíku veseni með að skapa okkur færi eða gæðin væru ekki mikil en það vantar ekkert upp á það. Markvarslan þarf að vera betri og svo þurfum við að nýta dauðafærin betur,“ sagði Einar Jónsson að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira