Innlent

Loka Sundhöll Selfoss vegna skorts á heitu vatni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ljóst er að margur fastagesturinn klórar sér nú í kollinum hvað hann á að gera í stað þess að fara í sund.
Ljóst er að margur fastagesturinn klórar sér nú í kollinum hvað hann á að gera í stað þess að fara í sund. Sundlaugar.is

Sundhöll Selfoss hefur verið lokað í ótilgreindan tíma. Ástæðan er heitavatnsskortur í kjölfar eldsvoða sem varð í rafmagnsskáp í einni af borholum Selfossveitna í Þorleifskoti.

Vegna eldsvoðans er orkuöflun verulega skert. Viðbragðsáætlun Selfossveitna hefur verið virkjuð.

„Þess vegna þurfum við að loka Sundhöll Selfoss ótímabundið. Munum láta ykkur vita strax hvenær við höfum nákvæmari tímalínuna um opnun aftur,“ segir í tilkynningu frá Sundhöll Selfoss.

Af sömu ástæðu hafa íbúar í sveitarfélaginu Árborg verið hvattir til að fara sparlega með vatn. Í tilkynningu á vef Árborgar er fólki gefin ráð hvernig megi spara vatnið, til dæmis með því að spara kyndikostnað með því að gæta þess að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á.

Þá skipti stillingar ofna einnig máli og það hvort þeir séu byrgðir eða ekki, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum.

„Heitir pottar eru talsvert þurftarfrekir á vatnið og gott að hafa í huga að fara sparlega með neysluvatn eins og við uppvösk, böð og sturtuferðir,“ segir á vef Árborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×