Handbolti

Voru herbergisfélagar í tuttugu ár: „Eigum alveg ofboðslega sterkt og fallegt samband“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Atlason og Ásgeir Örn Hallgrímsson eru jafnaldrar (fæddir 1984) og héldust í hendur í gegnum allan ferilinn.
Arnór Atlason og Ásgeir Örn Hallgrímsson eru jafnaldrar (fæddir 1984) og héldust í hendur í gegnum allan ferilinn. vísir/vilhelm

Ásgeir Örn Hallgrímsson og Arnór Atlason urðu samferða í gegnum handboltaferilinn og vinátta þeirra er einstök.

Ásgeir og Arnór voru aðalmennirnir í íslenska U-18 ára landsliðinu sem varð Evrópumeistari 2004. Þeir spiluðu svo lengi saman í A-landsliðinu, meðal annars á Ólympíuleikunum í Peking 2008 þar sem Ísland vann til silfurverðlauna.

Ásgeir var gestur Stefáns Árna Pálssonar í þriðja þætti Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttaröð um silfurliðið í Peking. Þar ræddi Ásgeir meðal annars um vináttu sína og Arnórs.

„Við erum frábærir vinir. Við byrjuðum á því að keppa á móti hvor öðrum og væntanlega þola ekki hvor annan. Svo vorum við báðir teknir inn í unglingalandslið með mönnum tveimur árum eldri en við. Þá byrjuðum við á að vera herbergisfélagar og vorum það í tuttugu ár,“ sagði Ásgeir.

„Við upplifðum allt saman. Alls konar vandræði, gleði og sorg. Við eigum alveg ofboðslega sterkt og fallegt samband. Maður var heppinn að það var manneskja þarna á sama tíma og maður fær að fara í gegnum þetta ferðalag með honum. Ég hefði ekki getað verið heppnari.“

Ásgeir og Arnór hafa eytt rosalega miklum tíma saman, álíka miklum og með mökum sínum.

„Fyrir utan konuna hefur enginn sofið oftar með mér en Arnór. Þetta voru sex vikur á ári í næstum því tuttugu ár,“ sagði Ásgeir. „Þetta líf er mikið hangs, vera inni á herbergi. Við getum talað um hvað sem er, hvenær sem er.“

Hlusta má á þriðja þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×