Handbolti

Myndband: Haukur fór að því virtist al­var­lega meiddur af velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haukur Þrastarson meiddist illa á hné haustið 2020 og var frá í rúmlega ár vegna meiðslanna.
Haukur Þrastarson meiddist illa á hné haustið 2020 og var frá í rúmlega ár vegna meiðslanna. EPA-EFE/GEIR OLSEN NORWAY OUT

Landsliðsmaðurinn Haukur Þrastarson virtist meiðast illa á hné í leik Pick Szeged og Lomza Kielce í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Neðst í fréttinni má sjá myndband af atvikinu.

Haukur hefur leikið einkar vel undanfarið og hóf leik kvöldsins af miklum krafti. Hann hafði skorað tvö mörk úr aðeins tveimur skotum þegar hann meiddist illa á hné um miðbik fyrri hálfleiks.

Hinn 21 árs gamli Haukur sleit fremra krossband og liðþófa í vinstra hné í október árið 2020 og var frá í ár vegna meiðslanna.  Hann var lengi að ná sér af meiðslunum og í viðtali við Vísi fyrir ári sagðist hann enn vera að glíma við ýmsa fylgikvilla vegna meiðslanna.

Haukur hafði þó loks náð sér á strik og hefur spilað frábærlega með Kielce að undanförnu.  Svo vel raunar að talið var að hann yrði í lykilhlutverki á HM í handbolta sem fer fram í janúar næstkomandi. 

Meiðslin áttu sér stað þannig að Haukur var að hoppa upp í skot, ákvað að skjóta ekki og ætlaði að taka eina gabbhreyfingu til viðbótar. Hann lendir hins vegar illa og hrynur í gólfið samstundis. Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan en það er ekki fyrir viðkvæma.

Óvíst er hversu alvarleg meiðslin eru en myndbandið og viðbrögð manna á vellinum segja sitt. Til að mynda var Talant Dujshebaev, þjálfari Hauks, algjörlega niðurbrotinn.

Kielce vann leikinn með þriggja marka mun, 28-31, og er þar með komið á topp B-riðils með einu stigi meira en Barcelona sem á leik til góða.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×