Erlent

Heche var ekki undir áhrifum fíkniefna

Samúel Karl Ólason skrifar
Anne Heche var 53 ára gömul þegar hún dó í sumar.
Anne Heche var 53 ára gömul þegar hún dó í sumar. Getty/EPA

Réttarmeinafræðingur Los Angeles hefur staðfest að leikkonan Anna Heche var ekki undir áhrifum fíkniefna þegar hún lenti í bílslysi í sumar. Hún slasaðist alvarlega í slysinu og dó skömmu síðar, eftir að hafa verið í dái. Hún var 53 ára gömul.

Blóðmælingar gáfu á sínum tíma til kynna að hún hefði mögulega verið undir áhrifum kókaíns og kannabisefna. Rannsókn hefur leitt í ljós að hún var ekki undir áhrifum fíkniefna heldur hefði líklegast neytt þeirra dagana fyrir slysið.

Leifar fentanýls fundust einnig í blóði Heche en People hefur eftir talsmanni réttarmeinafræðings LA að hún hefði neytt þeirra lyfja í samráði við lækna eftir læknismeðferð.

Þann 5. ágúst keyrði Heche bíl sínum á hús í Los Angels. Í aðdraganda þess hafði hún lent í tveimur smávægilegum árekstrum. Hún keyrði á húsið á um 130 kílómetra hraða og engin bremsuför fundust á vettvangi, samkvæmt rannsóknarskýrslu sem blaðamenn People hafa séð.

Sjá einnig: Anne Heche er látin

Eldur kviknaði í bæði bílnum og í húsinu en síðar kom í ljós að hún var föst í logandi bílnum í um 45 mínútur. Skoðun sérfræðinga hefur leitt í ljós að Heche brann svo illa að líkami hennar gat ekki notað súrefni og þess vegna hafi hún hlotið mikinn heilaskaða sem leiddi til dauða hennar.

Hún var í dái í tæpa viku áður en hún dó. Á þeim tíma var hún á brunadeild og gekkst margar skinnígræðslur vegna brunasára hennar. Hún lést tæknilega séð þann 11. ágúst en hjarta hennar var haldið gangandi til 14. ágúst svo hægt væri að nýta líffæri hennar í samræmi við óskir hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×