Handbolti

„Ég hefði viljað vera elskaður og dáður þegar ég var barn frekar en full­orðinn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson hefur verið mjög sigursæll síðan að hann kom í Val.
Björgvin Páll Gústavsson hefur verið mjög sigursæll síðan að hann kom í Val. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson gefur út barnabók fyrir þessi jól en þar erum við að tala um bókina Barn verður forseti. Gaupi hitti handboltahetjuna og forvitnaðist um bókina.

„Barn verður forseti er heiðarleg, ljúfsár saga um von, metnað og kærleika og mikilvægi þess að gefast aldrei upp,“ sagði Guðjón Guðmundsson frá nýju bókinni en spurði síðan Björgvin Pál sjálfan út í bókina.

„Ég er búinn að vera að halda fyrirlestra út um allt land. Þessi bók er búin að vera til í tölvunni í smá tíma. Í ljós aðstæðna í alls konar þungum málum í kringum mig og eins í heimi barnanna okkar allra þá ákvað ég að keyra á þetta fyrir þessi jól,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson.

Hrikalega stoltur af bókinni

„Ég er stoltur af þessu listaverki en ég fékk tvo stórkostlega menn, Braga Pál [Sigurðarson] og Adda Nabblakusk, til að taka þátt í þessu með mér og ég er hrikalega stoltur að vera að gefa út þessa bók nú fyrir jólin,“ sagði Björgvin Páll.

Í bókinni bregður einnig fyrir reiða og hrædda stráknum sem réð ekki við tilfinningar sínar, var einmana og hræddur eins og Björgvin var á sínum yngri árum.

Barnaútgáfan af Án filters bókinni

„Þetta er svolítið mín ævisaga og smá framtíðarspá líka. Smá leikur að orðum líka. Án filters bókin mín sem kom út fyrir um ári síðan, þetta er svona barnaútgáfan af henni,“ sagði Björgvin Páll.

Klippa: Gaupi ræðir við Björgvin Pál um Barn verður forseti

„Ég segi frá sex ára stráknum sem beit kennarann sinn, átta ára stráknum sem var lagður inn á Bugl og tólf ára stráknum sem var erfitt að þykja vænt um í sveitinni. Þetta er staðan á mér núna og kannski að ég hefði viljað vera elskaður og dáður þegar ég var barn frekar en fullorðinn,“ sagði Björgvin Páll og hann vill að sem flestir lesi bókina á öllum aldri.

„Ég held að þetta sé holl bók fyrir alla að lesa, foreldra, börn og ungmenni,“ sagði Björgvin Páll sem brennur fyrir málefnið.

„Ég brenn mikið fyrir börnin okkar og finnst almennt séð illa að þeim vegið í samfélagi okkar í dag. Mér finnst að þau þurfi að spegla sig í fyrirmyndum. Ég held að minn tilgangur í lífinu sé að vera fyrirmynd og hjálpa öðrum að líða betur,“ sagði Björgvin Páll.

„Ef mér tekst það þá er ég sáttur. Ef mér tekst að bjarga einu barni ef að eitt barn getur speglað sig í minni fortíð. Bókin er svolítið þannig uppsett að segja börnunum að þetta verði allt í lagi sama hvað á dynur,“ sagði Björgvin Páll.

Það er nóg að gera hjá Björgvini Páli í handboltanum með Val og íslenska landsliðinu en hvernig fór hann að því að búa til tíma fyrir bókarskrif?

Björgvin Páll

Yrði fyrst geðveikur að hugsa bara um handbolta allan daginn

„Ég hef engan tíma í þetta satt best að segja. Með handboltanum þá verð ég að hafa eitthvað aukalega að gera. Ég yrði fyrst geðveikur ef ég væri bara að hugsa um handbolta allan daginn. Ég er svolítið manískur þegar kemur að svona hlutum og ég vill hafi einhvern innri hvata líka þegar kemur að því að spila handbolta,“ sagði Björgvin Páll.

Minn draumur átta ára var að verða frægur

„Ég er að spila handbolta út af því að ég er fyrirmynd og út af því að ég get hjálpað með því líka. Minn draumur átta ára var að verða frægur. Í dag er ég þekkt persóna og vill nota það til að láta að mér kveða,“ sagði Björgvin Páll.

„Þar sem ég á ekki endalaus ár eftir í boltanum þá er mikilvægt að nota tímann vel, halda rétt á spilunum og láta líka eitthvað gott að mér leiða líka,“ sagði Björgvin Páll.

Það má finna allt spjall Gaupa við Björgvin Pál hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×