Þetta kemur fram í glærukynningu sem stjórnendur STJ Advisors kynntu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis síðastliðinn mánudag. Þar segir segir jafnframt að það sé þeirra „faglega mat“ að útboðsgengið 117 krónur á hlut hafi verið „eins gott og hugsast gat“ (e. optimal) með hliðsjón af þeim yfirlýstu markmiðum sem stjórnvöld höfðu sett við söluferlið.
Bankasýslan, fyrir hönd íslenska ríkisins, seldi 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka fyrir tæplega 53 milljarða króna í mars. Gengið var rétt ríflega fjórum prósentum lægra en síðasta dagslokagengi.
Um var að ræða svokallað hraðað tilboðsfyrirkomulag (e. Accelerated Book Build Offering). Það hófst eftir lokun markaða hinn 22. mars og lauk klukkan 21.30 sama dag. Væri tilkynnt um útboðið með talsverðum fyrirvara væru líkur á að gengið myndi falla í ljósi þess að fjárfestar reiknuðu með miklu framboði af bréfum. Við það myndi ríkið fá minna fyrir hlutabréfin. Auk þess yrði ríkið enn stærsti hluthafi Íslandsbanka eftir söluna og því hefur það hagsmuni að gæta að gengisþróunin verði hagfelld á næstu misserum.
Útboðið markaði tímamót fyrir íslenskan verðbréfamarkað, að mati STJ Advisors, í ljósi stærðar viðskiptanna, hvernig þau voru uppbyggð og tímasetningu. Um var að ræða fyrsta stóra útboðið í Evrópu með slíku tilboðsferli eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Að auki er vakin athygli á í glærukynningunni að útboðið hafi farið fram án þess að upplýsingar hefðu lekið til þeirra sem ekki ættu að vita af því.
Til að leggja mat á hve vel útboðið gekk horfa stjórnendur STJ Advisors meðal annars til umfangs sölunnar í hlutfalli við veltu með hlutabréf bankans á markaði. Niðurstaða útboðsins var að frávikið frá síðasta dagslokagengi Íslandsbanka var hið minnsta, þegar litið er til sambærilegs útboðs sem nemur meira 200 dag veltu, sem sést hefur síðan árið 2019. Það þykir þeim merkilegt í ljósi þess að upphaflega stóð til að selja 15 prósenta hlut í Íslandsbanka en að lokum var ákveðið að auka umfangið í 22,5 prósent. Það er 50 prósenta munur og þykir mikil stækkun.
STJ Advisors hafa meðal annars komið að sambærilegu hlutafjárútboði á hlut í Wizz air fyrir Indigo Partners í febrúar 2020 og sölu á hlut í Hafnia fyrir Oaktree í september. Um er að ræða umsvifamikil fjárfestingafélög.
Ríkisendurskoðun hefur í úttekt sinni látið að því liggja að ríkissjóður kunni að hafa geta fengið hærra verð þegar hann seldi hluti í Íslandsbanka í tilboðsferli. Jafnvel á genginu 122 krónur þrátt fyrir nánast enga umframeftirspurnar á því verði.
Fram hefur komið í fréttum að gengi Nova lækkaði eftir strax frumútboð sitt í sumar vegna þess að hve lítil umframeftirspurn var frá fagfjárfestum.
„Lokagengið í sölunni var gífurlega (e. extremely) vel lukkað, sérstaklega í ljósi markaðsaðstæðna,“ segir í kynningu STJ Advisors sem vekur athygli á að markaðir hafi verið sveiflukenndir frá því að stríðið í Úkraínu hófst og dregið hefur hratt úr fjölda útboða af þeim sökum. Þá er það niðurstaða STJ Advisors að það sé
Lokagengið í sölunni var gífurlega vel lukkað, sérstaklega í ljósi markaðsaðstæðna.
Einungis þrjú stór hlutafjárútboð skráðra félaga með tilboðsferli - yfir 100 milljónum evra - fóru fram í Evrópu á þriggja vikna tímabili fram að útboði Íslandsbanka. Umsvifin á fyrstu þremur mánuðum ársins hvað varðar slík útboð eru 66 prósent minni en á sama tíma fyrir ári.
Frá útboði Íslandsbanka hefur írska ríkið selt mun minni hlut í bankanum AIB, eða 4,95 prósent. Sú sala jafngilti 49 daga veltu – samanborið við um 300 daga veltu í tilfelli sölunnar á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka. Engu að síður gekk útboð Íslandsbanka töluvert betur vegna þess að frávikið frá síðasta dagslokagengi var töluvert minna og morguninn eftir útboðið í Írlandi lækkuðu bréfin niður fyrir útboðsgengið. Hlutirnir í Íslandsbanka voru seldir á rétt ríflega fjórum prósentum lægra verði en sem nam síðasta dagslokagengi á meðan frávikið í tilfelli AIB-bankans var 6,6 prósent, að því er fram kemur í kynningu ráðgjafanna.
STJ Advisors segja að erlendir fjárfestar hafi verið mikilvægir sölunni í ljósi þeirra yfirlýstu markmiða stjórnvalda í einkavæðingarferlinu um að fá dreift og fjölbreytt eignarhald að bankanum. Eftirspurnin frá alþjóðlegum fjárfestum á lokagenginu 117 krónur á hlut nam 230 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði ríflega 33 milljarða króna.
Eins og komið hefur verið á nemur salan í útboði Íslandsbanka um 300 daga veltu með bréfin á markaði. Vakin er athygli á í glærukynningunni að meðtalið fyrir slík útboð í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku, sé um 40 dagar. Að auki jafngilti salan á Íslandsbanka tíu daga veltu alls íslenska hlutabréfamarkaðarins.
Um var að ræða stærsta útboð skráðs félags í Evrópu með tilboðsfyrirkomulagi frá september árið 2021 ef tekið er tillit til stærðar þess í hlutfalli við veltu á markaði, að fram kemur í kynningunni.