Skoðun

Mála­flokkur fatlaðra er skilinn eftir

Guðbrandur Einarsson skrifar

Allt frá því að lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir tóku gildi árið 2018 hefur málaflokkurinn verið rekinn með halla og er sá hallarekstur er farinn að sliga mörg sveitarfélög.

Svo virðist að kostnaðarmatið sem var framkvæmt í upphafi hafi hreinlega ekki náð utan um þær breytingar sem voru fólgnar í frumvarpinu og þjónustuskylduna sem lögð var á sveitarfélögin.

Strax á árinu 2018 var halli upp á tæpa þrjá milljarða króna og hefur síðan þá vaxið stöðugt. Hann var 5,6 milljarðar árið 2019 og tæpir 9 milljarðar árið 2020. Allt útlit er fyrir að halli hvers árs sé nú kominn vel á annan tug milljarða króna. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur haldið því fram, meðal annars í þingsal, að engar athugasemdir hafi verið gerðar við kostnaðarmat frumvarpsins þegar það varð að lögum. Þessi fullyrðing ráðherra stenst ekki skoðun. Umsagnir ASÍ og Reykjavíkurborgar til dæmis staðfesta að þessir aðilar voru ekki sammála kostnaðarmatinu sem lagt var til grundvallar, og gerðu fyrirvara þar að lútandi.

Innviðaráðherra hefur í viðtölum nefnt að koma þurfi til móts við sveitarfélögin en sú upphæð sem hann nefndi dugar hvergi nærri til og hefur í þokkabót ekki verið samþykkt á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Þá er ekki hægt að sjá að verið sé að bæta sveitarfélögunum þetta, hvorki í fjáraukalögum þessa árs né í fjárlögum ársins 2023.

Í síðustu fjárlögum var gert ráð fyrir 2,2 milljörðum í NPA samninga og sú upphæð átti að duga fyrir 172 samningum. Það þýðir að hver samningur mátti kosta 13 milljónir að meðaltali.

Niðurstaðan er hins vegar sú skv. skýrslu Haraldar Líndal Haraldssonar, hagfræðings og fyrrverandi bæjarstjóra, að hver samningur kostar að meðaltali 30 milljónir. Upphæðin dugar því aðeins fyrir 74 samningum. Þessir 98 samningar sem út af standa verða ýmist ekki gerðir eða ef þeir verða gerðir þá er það á kostnað sveitarfélaganna. Ríkisstjórnin þarf að gera betur en þetta ef standa á við stjórnaráttmálann.

Guðbrandur Einarsson

þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×