Handbolti

SB: Dúndra Berg er leikmaðurinn sem við erum búin að bíða svo spennt eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir og Elísa Elíasdóttir fagna marki. Þær eru báðar að koma aftur inn í ÍBV liðið sem er mikill styrkur.
Birna Berg Haraldsdóttir og Elísa Elíasdóttir fagna marki. Þær eru báðar að koma aftur inn í ÍBV liðið sem er mikill styrkur. Vísir/Vilhelm

Birna Berg Haraldsdóttir fór á kostum þegar Eyjakonur fóru með bæði stigin í burtu af heimavelli Íslandsmeistara Fram um síðustu helgi og Seinni bylgjan tók það fyrir hvað þessa öfluga skytta kemur með inn í lið ÍBV.

„Birna Berg. Þetta er leikmaðurinn sem við erum búin að bíða svo spennt eftir, að Dúndra Berg fari af stað,“ sagði Svava Kristín Gretarsdóttir, umsjónarkona Seinni bylgjunnar.

„Birna er búin að vera vaxandi í hverjum leik og hún átti frábæran leik þarna,“ sagði Svava Kristín.

„Hún átti geggjaðan leik,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, sem segir að ÍBV liðið hafi verið að reyna að koma Birnu í gang eftir að hún kom aftur til baka eftir meiðsli.

„Það er verið að reyna að fá hana í flugbrautina og fá upp sjálfstraustið hjá henni. Þetta er fyrsti leikurinn þar sem maður sér glitta í hana,“ sagði Sigurlaug.

„Hún er að koma úr ótrúlega erfiðum meiðslum. Það er þvílík þrautseigja í henni að halda áfram. Þetta er bara geggjað,“ sagði Sigurlaug.

„Er þetta ekki fyrsti leikurinn þar sem við sjáum góðu gömlu Birnu Berg,“ spurði Svava Kristín.

„Mér finnst það. Þetta var svolítið að fara í veginn og fyrsta skotið hennar var í magann á einhverjum varnarmanni. Þarna sér maður hana í réttu ljósi og það eru frábærar fréttir fyrir Eyjastúlkur,“ sagði Sigurlaug.

Það má sjá umfjöllunina um Birnu Berg hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Dúndra Berg breytir miklu fyrir ÍBV



Fleiri fréttir

Sjá meira


×