Handbolti

Noregur kom til baka og tryggði sér níunda Evrópumeistaratitilinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Norska liðið fagnar Evrópumeistaratitlinum í kvöld.
Norska liðið fagnar Evrópumeistaratitlinum í kvöld. Vísir/EPA

Noregur varð í kvöld Evrópumeistari kvenna í handknattleik þegar þær unnu 27-25 sigur á Dönum í úrslitaleik. Þórir Hergeirsson vinnur þar með sín níundu gullverðlaun á stórmóti sem þjálfari norska liðsins.

Noregur var ríkjandi Evrópumeistari fyrir úrslitaleikinn en Danir voru hins vegar í fyrsta sinn í úrslitaleik á stórmóti í átján ár.

Það voru Danir sem byrjuðu betur í dag. Norska liðið var í vandræðum í sókninni og fór oft illa að ráði sínu. Danir komust í 10-6 og leiddu með þremur mörkum í leikhléi, staðan þá 15-12.

Í síðari hálfleik héldu Danir lengst af forystunni. Þeir leiddu meðal annars 22-18 en þá fór norska vörnin í gang með Katrine Lunde í stuði þar fyrir aftan. Norðmenn skoruðu fjögur mörk í röð og jöfnuðu í 22-22.

Undir lokin var reynsla Norðmanna svo dýrmæt. Danir voru áfram í brasi sóknarlega á meðan lykilleikmenn Norðmanna stigu upp. Lokatölur 27-25 og Norðmenn fögnuðu gríðarlega í leikslok.

Nora Mörk var frábær hjá Noregi í dag og var valin maður leiksins. Hún skoraði átta mörk og tók af skarið sóknarlega þegar á þurfti að halda. Katrine Lunde kom inn í síðari hálfleiknum og varði mikilvæg skot undir lokin.

Fögnuðurinn í leikslok var ósvikinn.Vísir/EPA

Hjá Dönum var Louise Burgaard markahæst með sex mörk og Emma Friis skoraði fimm.

Hin norska Henny Reindal var valin besti leikmaður Evrópumótsins og fékk verðlaun afhent í lok leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×