Handbolti

Svartfjallaland tryggði sér bronsverðlaun eftir framlengingu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það var hart barist í leiknum í dag.
Það var hart barist í leiknum í dag. Vísir/AP

Svartfjallaland tryggði sér bronsverðlaun á Evrópumótinu í handknattleik þegar þær lögðu Frakka 27-25 í framlengdum leik. Þetta eru þriðju verðlaun Svartfellinga á stórmóti.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi. Svartfellingar voru oftar með frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddu 13-12 að honum loknum.

Svartfellingar náðu nokkrum sinnum þriggja marka forskoti í síðari hálfleiknum og var Itana Grbic öflgu í þerra liði sem og Marta Batinovic í markinu. Undir lokin komu Frakkar þó til baka. Þeir breyttu stöðunni úr 20-17 í 21-20 sér í vil og spennan í algleymingi.

Lokasekúndurnar voru svo ótrúlega spennandi. Svartfellingar komust yfir á ný í stöðunni 22-21 og voru með boltann þegar hálf mínúta var eftir. Boltinn var hins vegar dæmdur af þeim og Frakkar fengu vítakast og Grbic tveggja mínútna brottvísun þegar tvær sekúndur voru eftir.

Á vítalínuna steig Grace Zaadi og jafnaði metin úr fyrsta vítakasti Frakka í leiknum. Því varð að framlengja.

Í framlengingunni voru Svartfellingar svo sterkari. Þær komust í 26-24 en Grace Zaadi fékk tækifæri til að minnka muninn í eitt mark þegar rúm mínúta var eftir. Hún skaut hins vegar yfir og þá var björninn unninn fyrir Svartfellinga.

Lokatölur 27-25 og Svartfellingar fögnuðu innilega í lokin, vel studdar af fjölmörgum stuðningsmönnum á pöllunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×