Enski boltinn

Segir að allir muni styðja Ten Hag nema Ferdinand, Keane og Evra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamie Carragher í baráttu við Cristiano Ronaldo í leik Liverpool og Manchester United fyrir ansi mörgum árum.
Jamie Carragher í baráttu við Cristiano Ronaldo í leik Liverpool og Manchester United fyrir ansi mörgum árum. getty/Bryn Lennon

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, segir að Cristiano Ronaldo hafi skorað sjálfsmark með viðtali sínu við Piers Morgan. Hann segir að nær allir stuðningsmenn United myndi styðja Erik ten Hag, knattspyrnustjóra liðsins, frekar en Ronaldo.

Í viðtalinu við Morgan drullaði Ronaldo yfir allt og alla hjá United, sakaði félagið um metnaðarleysi og svik við sig, Ten Hag um vanvirðingu, sagði fyrrverandi samherja sinn, Wayne Rooney, vera ófríðan og þar fram eftir götunum.

Carragher segir að Ronaldo hafi gert stór mistök með viðtalinu og stuðningsmenn United muni fylkja sér um Ten Hag.

„Ronaldo „Ég ber ekki virðingu fyrir stjóranum“, Ronaldo undir stjórn ETH: Óskaði eftir því að fara, neitaði að koma inn á sem varamaður, yfirgaf varamannabekkinn og fór áður en leikurinn kláraðist,“ skrifaði Carragher á Twitter og vísaði til þess þegar Ronaldo vildi ekki koma inn á í sigri United á Tottenham.

„Níutíuogníu prósent stuðningsmanna United verða á bandi ETH sem sýnir hversu illa Ronaldo fór með þetta.“

Carragher bætti við að þetta eina prósent sem myndi styðja Ronaldo væru fyrrverandi samherjar Portúgalans, Rio Ferdinand, Roy Keane og Patrice Evra.

Viðtalið umtalaða fór í loftið í gærkvöldi, nokkrum klukkutímum eftir að United hafði unnið dramatískan sigur á Fulham á Craven Cottage, 1-2. Alejandro Garnacho skoraði sigurmark United nánast með síðustu spyrnu leiksins. Ronaldo sagðist vera of veikur til að geta mætt í leikinn, eftir að honum var tjáð að hann yrði ekki í byrjunarliði United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×