Erlent

Sýningar­flug­vélar skullu saman í lofti

Árni Sæberg skrifar
B-17 sprengjuflugvél sprakk með miklum látum eftir að hún hrapaði í Dallas í dag.
B-17 sprengjuflugvél sprakk með miklum látum eftir að hún hrapaði í Dallas í dag. Nathaniel Ross Photography/AP

Talið er að sex manns hafi verið um borð í tveimur gömlum herflugvélum sem skullu saman í lofti á hersýningu í Dallas í Bandaríkjunum í dag.

Bandaríkjamenn halda um helgina upp á dag uppgjafarhermanna sem er á morgun. Í því felst meðal annars að fjöldi fólks kemur saman til þess að horfa á hersýningar. Ein slík var haldin í Dallas í Texas í dag. 

Svo fór ekki betur en að B-17 sprengjuflugvél og P-63 Kingcobra orrustuflugvél skullu saman á meðan B-17 vélinni var flogið í oddaflugi ásamt fleiri sprengjuflugvélum. Margir voru viðstaddir og því má finna fjölda myndskeiða af atvikinu á samfélagsmiðlum. Tvö slík má sjá hér að neðan.

AP hefur eftir Leah Block, talskonu Commemorative Air Force, samtaka sem setja á svið sýningar með herflugvélum úr seinni heimstyrjöldinni, að talið sé að fimm hafi verið um borð í sprengjuflugvélinni og einn í orrustuflugvélinni. Engar fregnir hafa borist af líðan þeirra sem í vélunum voru en af myndböndum að dæma er ósennilegt að nokkur hafi komist lífs af.

Victoria Yeager, ekkja Chucks Yeager, sem rauf hljóðmúrinn fyrstur manna í flugvél, var viðstödd sýninguna.

„Flakið var gjörónýtt. Við vonuðum bara að allir hefðu komið sér út en við vissum að þeir höfðu ekki gert það,“ hefur AP eftir henni.

Flak sprengjuflugvélarinnar er gjörónýtt eftir áreksturinn.LM Otero/AP

Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum hafa hafið rannsókn á slysinu í samstarfi við lögregluna á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×