Lífið

Söngvari Nazareth er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Dan McCafferty á tónleikum í Varsjá árið 2012.
Dan McCafferty á tónleikum í Varsjá árið 2012. EPA

Skoski söngvarinn Dan McCafferty, sem var einn af forsprökkum þungarokkssveitarinnar Nazareth, er látinn, 76 ára að aldri. Sveitin gerði garðinn frægan með rokkslögurum á borð við Love Hurts og Hair of the Dog.

Bassaleikari Nazareth, Pete Agnew, staðfesti andlátið í færslu á Instagram. Sagði hann þetta sorglegustu tilkynningu sem hann hafi nokkurn tímann þurft að færa. Eiginkona McCafferty, Maryann, og fjölskylda hafi misst yndislegan eiginmann og föður, Agnew sjálfur hafi misst sinn besta vin og heimurinn allur hafi misst einn mesta söngvara sögunnar.

McCafferty var í hópi stofnmeðlima Nazareth, en sveitin var stofnuð í Dunfirmline í Skotlandi árið 1968. Hinir stofnmeðlimir sveitarinnar voru bassaleikarinn Agnew, gítarleikarinn Manny Charlton og trommarinn Darrell Sweet.

Sveitin sló í gegn í Bretlandi með þriðju plötu sinni, Razamanaz, árið 1973 og ári síðar gáfu þeir út plötuna Loud and Proud.

Lagið Love Hurts var upprunalega lag Everly-bræðra en Nazareth gaf úr ábreiðu af laginu árið 1975 sem naut gríðarlegra vinsælda.

McCafferty hætti að koma fram með Nazareth árið 2013 vegna vanheilsu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×