Lífið samstarf

Amnesty International og Listaháskólinn í hönnunarsamstarfi

Amnesty International
Amnesty-sokkarnir í ár eru hönnun Möggu Magnúsdóttur. Sokkarnir verða kynntir með pompi og prakt á morgun milli kl. 17-19 í versluninni Andrá Laugavegi 16.
Amnesty-sokkarnir í ár eru hönnun Möggu Magnúsdóttur. Sokkarnir verða kynntir með pompi og prakt á morgun milli kl. 17-19 í versluninni Andrá Laugavegi 16. Óttar Guðnason

Íslandsdeild Amnesty International selur sokka eftir íslenska hönnuði til styrktar mannréttindastarfsins. Á hverju ári er ný hönnun kynnt fyrir jólin.

Magga Magnúsdóttir sigraði hönnunarsamkeppni Amnesty International og Listaháskólans um Amnesty-sokkana í ár.

„Það er ótrúlega skemmtilegt að hafa verið valin. Þetta er í fyrsta skipti sem hönnun eftir mig fer í framleiðslu og ég er mjög spennt að sjá sokkana í verslunum og sjá fólk nota þá. Ég á sjálf marga Amnesty sokka og hugsaði mér að þetta væri skemmtilegt tækifæri,“ segir Guðný Margrét Magnúsdóttir, eða Magga Magnúsdóttir, hönnuðurinn á bak við Amnesty-sokkana í ár.

Magga sigraði hönnunarsamkeppni sem Amnesty hélt í samvinnu við Listaháskóla Íslands síðasta vor. Hún stundar nám á lokaári í fatahönnun við skólann og segir ferlið við hönnun sokkanna hafa verið lærdómsríkt. Mikið er lagt upp úr sjálfbærni í framleiðsluferlinu. Bómullinn er formlega vottuð af Cotton Made in Africa sem er staðall fyrir bómull í Afríku til að efla lífs­kjör smábænda og stuðla að umhverf­i­s­vænni bómullar­fram­leiðslu samkvæmt ströngum skil­yrðum.

Óttar Guðnason

„Sokkarnir eru framleiddir í verksmiðju í Portúgal. Amnesty heldur utan um framleiðsluna en ég var sjálf í samskiptum við verksmiðjuna og þurfti að senda út teikningarnar að munstrinu og passa að litirnir væru réttir eftir þeirra litakerfi og fleira. Ég hafði aldrei gert þetta áður en kennararnir mínir voru mér til aðstoðar gegnum ferlið. Nú veit ég aðeins meira,“ segir Magga. Við hönnunina nýtti hún sér munsturáfanga sem hún fór í gegnum í skólanum.

Óttar Guðnason

„Einingin í munstrinu er unnin út frá fiðrildavæng sem ég vann í munsturáfanga á 1. ári. Ég hannaði endurtekningarmunstur og þá þarf að horfa í hvernig einingin dreifist og passa að það sé jafnvægi í munstrinu. Munsturgerð er sérgrein í hönnun og mjög skemmtileg. Ég vann fiðrildavænginn áfram í Photoshop, raðaði munstrinu upp og ákvarðaði hvaða stærð væri best á sokka,“ segir Magga.

Sokkarnir eru komnir í sölu og verða kynntir með pompi og prakt á morgun fimmtudaginn 10. nóvember milli kl. 17-19 í versluninni Andrá Reykjavík, Laugavegi 16.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.