Skoðun

Að­gengi er ekki bara að­gengi að byggingum

Hrönn Stefánsdóttir skrifar

Menntun á öllum skólastigum og þá ekki síst á háskólastigi er mjög mikilvægt tæki til að hjálpa fólki með skerta starfsgetu að fá starf sem betur hentar þeim takmörkunum sem það upplifir. Hún eykur möguleika fólks til að finna starf við hæfi og verða virkir þáttakendur í atvinnulífinu.

Fólk sem telst fatlað er mjög fjölbreyttur hópur. Fatlanirnar geta bæði verið sýnilegar og ósýnilegar. Til að fatlaðir nemendur geti stundað nám er mikilvægt að aðgengi að námi verði tryggt á öllum skólastigum óháð fötlun eða öðrum hindrunum. Einnig þarf að vinna að því að skapa fjölbreyttari tækifæri til menntunar. Jafna verður tækifæri fatlaðs fólks til náms og tryggja að nemendur með sérþarfir fái þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á innan skólakerfisins.

Til þess að hægt sé að ná þessu markmiði er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að aðgengi nemenda, í víðasta skilningi þess orðs, sé tryggt til þess að draga út brottfalli fatlaðra nemenda.

Þegar litið er til aðgengis að námi á háskólastigi er ekki nóg að huga aðeins að aðgengi að byggingum heldur þarf einnig að huga að því hvort að námið sjálft sé aðgengilegt. Því þarf að tryggja að nemendur fái þann stuðning sem þeir þurfa til að geta stundað námið. Sá stuðningur getur falist í því að tryggt sé að námsefnið sé á því formi sem hentar nemandanum ef um blinda eða lesblinda nemendur er að ræða, nemendur sem það þurfa fái lengri próftíma eða að lengd námstímans verði aðlöguð að þörfum nemandans svo fátt eitt sé nefnt.

Ríkisstjórnin lagði áherslu á fjölbreytni í skólakerfinu í stjórnarsáttmála sínum. Þrátt fyrir það gerir nýtt fjárlagafrumvarp hvorki ráð fyrir auknu fjármagni í bætt aðgengi að skólabyggingum né námi almennt.

Námsmenn geta ekki fengið styrki úr Menntasjóði námsmanna nema út frá námsframvindu. Þetta mismunar þeim sem ekki geta stundað fullt nám vegna fötlunar eða langvarandi veikinda. Mikilvægt er að stjórnvöld leggi aukið fé í þennan málaflokk til að tryggja tækifæri fatlaðs fólks til menntunar til jafns við aðra.

Höfundur er formaður málefnahóps ÖBÍ um atvinnu- og menntamál.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×