Erlent

Vilja að einn milljarður dollara í Bitcoin verði gerður upp­tækur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skjáskot af vefsíðunni Silkroad
Skjáskot af vefsíðunni Silkroad

Bandarísk yfirvöld hafa gert kröfu um að um einn milljarður dollara í rafmyntinni Bitcoin sem stolið var frá sölusíðunni Silk Road, sem hýsti markaðssvæði með ólögleg fíkniefni og aðra ólögmæta starfsemi, verði gerður upptækur

Greint er frá þessu á vef Reuters þar sem fram kemur að fulltrúar Skattsins í Bandaríkjunum hafi lagt hald á fimmtíu þúsund Bitcoin í lögregluaðgerð í nóvember á síðasta ári.

Hið mikla magn rafmyntarinnar fannst í fórum hins 32 ára James Zhong, sem ákærður var fyrir fjársvik með því að hafa stolið fjármununum frá Silk Road árið 2012.

Sölusíðan Silk Road var upprætt árið 2013 af lögregluyfirvöldum í Bandaríkjunu. Íslenska lögreglan spilaði þar lykilhlutverk á sínum tíma og fékk lögreglan hér á landi nokkur hundruð milljónir króna frá yfirvöldum í Bandaríkjunum fyrir aðstoðina.

Á vef Reuters segir að sumt af þeirri rafmynt sem yfirvöld lögðu hald á í aðgerðunum gegn Zhong hafi fundist á tölvu sem falin var í poppkornskassa í baðhergisskáp.

Í Bandaríkjunum er ekki óalgengt að andvirði ólöglegs ávinnings af lögbrotum sé látið renna til lögreglunnar eða þess embættis sem rannsakar og upplýsir um þau. Í málinu gegn Zhong hafa bandarísk yfirvöld gert kröfu um að rafmyntin sem fannst verði gerð upptæk.

Miðað við gengi dagsins eru fimmtíu þúsund Bitcoin virði um 150 milljarða íslenskra króna.

Lögfræðingur Zhong segir að skjólstæðingur sinn sjái mjög eftir að hafa framið þá glæpi sem hann er sakaður um. Búast má við að hann fái allt að þriggja ára fangelsisdóm vegna málsins.


Tengdar fréttir

Fé fyrir Silk Road-rannsókn komið í nýjan löggæslusjóð

Bandarísk stjórnvöld hafa afhent íslenskum stjórnvöldum tæpar þrjár milljónir dollara vegna aðstoðar við upprætingu ólöglegu sölusíðunnar Silk Road. Síðan var hýst hér á landi. Féð, alls 355 milljónir króna, hefur þegar verið afhent. Því verður varið til rannsókna á skipulagðri brotastarfsemi.

Stofnandi Silk Road dæmdur í lífstíðarfangelsi

„Ég hef lært það af Silk Road að þegar þú gefur fólki frelsi veistu ekki hvað þau koma til með að gera við það,“ skrifaði Ulbricht í hjartnæmu bréfi til dómarans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×