Lífið

Fólk sem býr og starfar við Elliðavatn lýsir dásemdum útvistarperlunnar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, starfar í Elliðavatnsbænum og býr í Norðlingaholti.
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, starfar í Elliðavatnsbænum og býr í Norðlingaholti. Arnar Halldórsson

„Það er alveg dásamlegt að vinna hérna. Þessi kyrrð og nánd við náttúruna. Þetta er ólýsanlegur vinnustaður. Þetta eru forréttindi að fá að vinna á þessum stað,“ segir Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, en skrifstofa félagsins er í Elliðavatnsbænum. Auður býr auk þess í Norðlingaholti, en hún segir það meðal lífsgæða hverfisins hvað það er nálægt Heiðmörk.

Fjallað er um um mannlíf við Elliðavatn í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld. Ný hverfi Reykjavíkur og Kópavogs, Norðlingaholts- og Vatnsendahverfi, tóku að byggjast upp um síðustu aldamót við helstu útvistarperlur borgarbúa. Þá var til staðar við vatnið lítið samfélag og ýmis starfsemi með áhugaverða sögu sem teygir sig aftur í aldir.

Ólafur Kr. Guðmundsson ólst upp við Elliðavatn.Arnar Halldórsson

Ólafur Kr. Guðmundsson segir það hafa verið dýrð að alast upp við Elliðavatn. Faðir hans var hinn kunni athafnamaður, Guðmundur Guðmundsson í Trésmiðjunni Víði, en heimili fjölskyldunnar byggði hann upp við vatnsbakkann og nefndi Víðivelli.

„Ég held að fáir í Reykjavík geri sér grein fyrir hversu mikil perla þetta er, Elliðaárdalurinn alveg frá ósum og til upptaka,“ segir Ólafur.

Þorstein Sigmundsson er bóndi í Elliðahvammi.Arnar Halldórsson

Og það finnast enn starfandi bændur við Elliðavatn. Kópavogsmegin á jörðinni Elliðahvammi hittum við Þorstein Sigmundsson, sem þar rekur eggja- og kjúklingabú. Þorsteinn og kona hans, Guðrún Alísa Hansen, keyptu Elliðahvamm árið 1964, aðeins tvítug að aldri, fluttu á staðinn og hófu búskap.

„Hérna voru bara nokkrir sumarbústaðir. Maður sá varla nokkurn mann allan veturinn. Við fengum bara algerlega frið fyrir öllum og vorum bara svolítið ein í heiminum,“ segir Þorsteinn um upphafsárin.

Eigendur Kríuness á bakka Elliðavatns neðan við hótelið.Arnar Halldórsson

Það er meira að segja hótel við Elliðavatn og það upp á fjórar stjörnur, Hótel Kríunes. Að rekstrinum stendur heil fjölskylda, þrjár kynslóðir. Stofnandinn Björn Ingi Stefánsson er framkvæmdastjóri Kríuness, dóttir hans Sara er hótelstjóri og amman, Helga Björnsdóttir, er innkaupastjóri Kríuness.

„Þvílíkt leyndarmál. Það vita ekkert margir af þessu,“ segir Sara að sé gjarnan viðkvæði íslenskra gesta hótelsins.

Hótel Kríunes við Elliðavatn.Arnar Halldórsson

Á Þingnesi við sunnanvert Elliðavatn eru friðlýstar minjar, sem Guðmundur Unnsteinsson sýnir okkur, en minjarnar eru taldar með þeim merkustu í borgarlandinu.

„Það er klárt að hér eru fornminjar um þinghald,“ segir Guðmundur.

Ingólfur Stefánsson og Matthildur Leifsdóttir búa í húsinu Stakkholti við bakka Elliðavatns.Arnar Halldórsson

„Þetta er minn lóttóvinningur að komast hingað,“ segir Matthildur Leifsdóttir sem býr í húsinu Stakkholti ásamt Ingólfi Stefánssyni.

Þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld klukkan 19:10. Einnig má nálgast hann á streymisveitunni Stöð 2+.

Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.