Handbolti

Noregur hefur titilvörnina á sigri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þórir Hergeirsson er þjálfari Noregs sem hóf mótið á sigri.
Þórir Hergeirsson er þjálfari Noregs sem hóf mótið á sigri. EPA/Domenech Castello

Keppni hófst á Evrópumóti kvenna í handbolta í dag. Mótið fer fram í Slóveníu, Svartfjallalandi og Norður-Makedóníu en leikið var í A- og B-riðli í fyrst nefnda landinu í kvöld.

Í fyrri leik dagsins í A-riðli kom Ungverjaland til baka gegn Sviss í Ljúblíana. Þær svissnesku leiddu 14-12 eftir jafnan fyrri hálfleik en fátt fékk liðin aðskilin í upphafi síðari hálfleiks. Í stöðunni 24-24 skildu leiðir er Ungverjar skoruðu þrjú mörk í röð til að komast 27-24 yfir. Ekki var aftur snúið og þær ungversku unnu fimm marka sigur 33-28. Katrin Klujber frá Ungverjalandi var markahæst með níu mörk.

Í þeim síðari unnu ríkjandi heims- og Evrópumeistarar Noregs, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, bronslið síðasta Evrópumóts Króata. Noregur var yfir lengst af í fyrri hálfleik og náði mest fjögurra marka forystu en munurinn var tvö mörk í hálfleik, 16-14.

Forskotið lét liðið aldrei af hendi og bætti við þegar leið á. Noregur vann að endingu níu marka sigur, 32-23. Nora Mörk var markahæst á vellinum með átta mörk en leikstjórnandinn Henny Reistad skoraði sjö.

Tap hjá Dönum en Svíar unnu

Danmörk er bronslið af HM í fyrra en tapaði fyrir gestgjöfum Slóveníu í fyrri leik dagsins í B-riðli í Celje. Mjótt var á munum og þar sem aldrei munaði meira en tveimur mörkum, en bæði lið náðu þeirri forystu í hálfleiknum. Þegar hálfleiksflautið gall leiddi Danmörk 15-14.

Danmörk var skrefi á undan í upphafi jafns síðari hálfleiks þar sem þær dönsku komust jafnan yfir á milli þess sem Slóvenar jöfnuðu. Á lokakaflanum seig Slóvenía fram úr þeim dönsku og vann tveggja marka sigur 28-26. Hin slóvenska Ana Gros var markahæst á vellinum með átta mörk en Trine Östergaard Jensen skoraði sjö fyrir Dani.

Grannar Dana frá Svíþjóð unnu sannfærandi sigur á Serbíu í síðari leiknum. Svíar voru með 14-9 forystu í hléi og unnu að endingu sex marka sigur, 27-21. Hægri hornamaðurinn Nathalie Hagman var markahæst með níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×