Handbolti

Ómar Ingi ekki með Magdeburg í grátlegu tapi í Danmörku

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gísli hefur verið frábær með Magdeburg að undanförnu.
Gísli hefur verið frábær með Magdeburg að undanförnu. Vísir/Getty

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti stórleik með Magdeburg sem beið lægri hlut gegn GOG í Meistaradeildinni í handknattleik í kvöld. Ómar Ingi Magnússon lék ekki með Magdeburg eftir að hafa gengist undir smávægilega aðgerð.

Fyrir leikinn í kvöld var Magdeburg með sjö stig í þriðja sæti A-riðils en GOG tveimur stigum á eftir í fjórða sætinu. Leikurinn í kvöld var æsispennandi. Liðin skiptust á að hafa forystuna í fyrri hálfleik en gestirnir leiddu í hálfleik 16-14.

Heimamenn í GOG byrjuðu síðari hálfleikinn vel. Þeir voru skrefinu á undan allan hálfleikinn þó Magdeburg hafi aldrei verið langt á eftir.

Lokamínúturnar voru síðan æsispennandi. Gísli Þorgeir jafnaði metin í 31-31 þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir en GOG náði forystunni strax aftur. Kay Smits jafnaði á nýjan leik þegar fjórar sekúndur voru eftir á klukkunni en það var nóg fyrir Emil Madsen til að skora sigurmarkið fyrir GOG sem að lokum vann 33-32 sigur og jafnar þar með Magdeburg að stigum.

Gísli Þorgeir var markahæstur í liði Magdeburg ásamt Kay Smits en báðir skoruðu þeir tíu mörk, nýting Gísla var frábær en mörkin tíu komu úr tólf skotum.

Ómar Ingi Magnússon kom ekki við sögu hjá Magdeburg en félagið greinir frá því á heimasíðu sinni að Ómar Ingi hafi gengist undir smávægilega aðgerð sem áður hafði verið greint frá að hann gæti þurft að gangast undir. Ekki er búist við langri fjarveru Ómars Inga sem jafnvel verður klár í slaginn strax í næstu viku.

Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir lið sitt Kielce sem lagði ungverska liðið Pick Szeged að velli í kvöld. Haukur skoraði eitt mark í leiknum en Kielce var með yfirhöndina frá upphafi og náði mest ellefu marka forystu í síðari hálfleiknum.

Kielce er með tíu stig eftir sex umferðir í B-riðli Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×