Innlent

Vilja álit umboðsmanns á yfirheyrslum blaðamanna

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. Vísir/Vilhelm

Blaðamannafélag Íslands hefur sent umboðsmanni Alþingis rökstutt erindi þar sem hann er hvattur til að hefja frumkvæðisathugun á rannsókn og embættisfærslum lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra vegna málatilbúnaðar þess gegn fjórum blaðamönnum.

Mikið hefur gengið á í málum fjögurra blaðamanna sem fengu stöðu sakborninga eftir að hafa fjallað um hina svokölluðu „skæruliðadeild Samherja“ vegna gruns um að hafa brotið lög um friðhelgi einkalífs. Óskað hefur verið eftir því að Mannréttindadómstóll Evrópu skeri úr um lögmæti framgöngu lögreglu og fjármálaráðherra hefur blandað sér í málið.

Frá hvatningunni er greint á vef Blaðamannafélagsins. Þar er haft eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formanns félagsins, sem segir mikilvægt að fá álit umboðsmanns á því hvort það að kalla blaðamenn til yfirheyrslu „fyrir það eitt að vinna vinnu sína“, hafi verið í samræmi við hlutverk lögreglu og þá vernd sem fjölmiðlar njóta samkvæmt stjórnarskrá.

„Blaðamannafélagið hefur ítrekað bent á að um störf fjölmiðla gilda önnur lög og reglur en önnur störf, vegna hlutverks fjölmiðla og mikilvægis þeirra fyrir lýðræðislega umræðu. Hlutverk umboðsmanns er að tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum og því mikilvægt að fá úr því skorið hvort brotið hafi verið á rétti blaðamannanna fjögurra í þessu tilviki,“ segir Sigríður. 

Blaðamannafélagið minnir þá á mikilvægi fjölmiðla í því að tryggja almenningi rétt til upplýsinga og að frjáls fréttaflutningur og vernd heimildarmanna séu grundvallarforsendur fyrir því að fjölmiðlar geti gegnt hlutverki sínu í lýðræðisþjóðfélagi.

Erindið ritar Flóki Ásgeirsson lögmaður en erindið má nálgast í heild sinni hér að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×