Erlent

Varað við eldgosi á stærstu eyju Havaí

Kjartan Kjartansson skrifar
Hraunspýjur í eldgosinu í Mauna Loa árið 1984. Gosið hefur 33 sinnum í fjallinu frá 1843 en þeim fylgja oft mikið hraunflæði.
Hraunspýjur í eldgosinu í Mauna Loa árið 1984. Gosið hefur 33 sinnum í fjallinu frá 1843 en þeim fylgja oft mikið hraunflæði. AP/Ken Love

Yfirvöld á bandarísku Kyrrahafseyjunni Havaí vara íbúa við að Mauna Loa, stærsta virka eldfjall eyjanna, gæti verið við það að gjósa. Jarðskjálftavirkni við tind fjallsins hefur aukist að undanförnu en Mauna Loa gaus síðast fyrir tæpum fjörutíu árum.

Mauna Loa á Havaíeyju er rétt rúmur helmingur af heildarlandmassa eyjunnar og því gæti stórt svæði orðið fyrir áhrifum ef gos hefst þar. Síðast gaus þar árið 1984 en síðan hefur íbúafjöldinn meira en tvöfaldast. Fjöldi þeirra um 200.000 manns sem búa á eyjunni upplifðu því ekki gosið fyrir 38 árum. Almannavarnir á eyjunum halda nú fræðslufundi fyrir íbúa um hvernig þeir geti undirbúið sig.

Sérfræðingar telja að hraun gæti náð þeim húsum sem standa næst gosgígum á aðeins örfáum klukkustundum, að sögn AP-fréttastofunnar. Þegar gaus í fjallinu árið 1950 rann hraun um tuttugu og fjögurra kílómetra leið að sjó á innan við þremur klukkustundum. Það gos stóð yfir í 23 daga og nam hraunrennslið um þúsund rúmmetrum á sekúndu. Til samanburðar er talið að rennslið í eldgosinu í Fagradalsfjalli í fyrra hafi numið um tólf rúmmetrum á sekúndu.

Vísindamenn rekja aukna jarðvirkni í fjallinu til kvikusöfnunar. Allt að fjörutíu til fimmtíu jarðskjálftar hafa mælst á dag á svæðinu undanfarið. Ekki er þó enn talið að eldgos sé yfirvofandi.

Um sjö hundruð heimili eyðilögðust þegar gaus í Kilauea-eldfjallinu á Havaíeyju sem er mun minna árið 2018.


Tengdar fréttir

Fengu hraunmola í gegnum þakið

Tuttugu og þrír farþegar slösuðust þegar stærðarinnar hraunklumpur hafnaði á ferðaþjónustubát á Havaí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×