Erlent

Segja Littlefeather hafa logið til um ættir sínar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sacheen Littlefeather lést fyrr á þessu ári.
Sacheen Littlefeather lést fyrr á þessu ári. Getty/Frazer Harrison

Systur aðgerðarsinnans Sacheen Littlefeather segja hana hafa logið til um að vera af ættum innfæddra í Bandaríkjunum. Faðir hennar eigi ekki rætur að rekja til Apache- og Yaqui-þjóðflokkanna, heldur sé hann frá Mexíkó.

Systur Littlefeather, Rosalind Cruz og Trudy Orlandi, ræddu um þetta við blaðamann The San Francisco Chronicle í grein sem birtist um helgina. Þær segja systur sína einungis hafa þráð að vera af ættum innfæddra.

„Þetta er svindl. Þetta er viðbjóðslegt fyrir arfleifð innfæddra. Þetta er móðgun við foreldra mína,“ er haft eftir Cruz í greininni.

Littlefeather varð heimsfræg á svipstundu árið 1973 þegar hún afþakkaði Óskarsverðlaunin fyrir hönd leikarans Marlon Brando. Hann hafði hlotið verðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Guðfaðirinn en hann vildi mótmæla til stuðnings við réttindabaráttu innfæddra í Bandaríkjunum.

Sacheen Littlefeather var skírð Marie Louise Cruz við fæðingu og samkvæmt greininni eru engar tengingar á milli hennar og innfæddra í Bandaríkjunum að finna.

„Besta leiðin fyrir mig að lýsa systur minni er að hún bjó sér til fantasíu. Hún bjó í þessari fantasíu og dó í þessari fantasíu,“ er haft eftir Cruz í greininni.

Littlefeather lést fyrr á þessu ári eftir baráttu við krabbamein í brjósti. 


Tengdar fréttir

Sacheen Littlefeather er látin

Aðgerðarsinninn Sacheen Littlefeather er látin, 75 ára að aldri. Hún hafði barist við krabbamein í brjósti undanfarin ár. Í tilkynningu frá Óskarsverðlaunaakademíunni segir að hún hafi verið umkringd fjölskyldu og vinum þegar hún féll frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×