Enski boltinn

Man. United liðið miklu betra án Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur spilað mikið með Manchester United í Evrópudeildinni en fengið lítið að spila í ensku úrvalsdeildinni.
Cristiano Ronaldo hefur spilað mikið með Manchester United í Evrópudeildinni en fengið lítið að spila í ensku úrvalsdeildinni. Getty/MB Media

Cristiano Ronaldo var hent út úr leikmannahópi Manchester United í gær eftir barnalega hegðun sína á sigurleiknum á móti Tottenham í vikunni.

Ronaldo yfirgaf leikvanginn áður en leikurinn var búinn og það þrátt fyrir að Manchester United væri að vinna flottan sigur. Hann gat ekki samglaðst liðsfélögum sínum heldur fór í fýlu af því að hann fékk ekki að spila stórt hlutverk.

Erik ten Hag sagðist eftir leikinn ætla að taka á þessu máli sem og hann gerði daginn eftir. Í dag var það staðfest að Ronaldo hafi neitað að koma inn á.

Ten Hag hefur verið óhræddur við að geyma súperstjörnu liðsins á varamannabekknum og hann var líka tilbúinn að kasta Ronaldo út úr hópnum fyrir leikinn á móti Chelsea um helgina.

En mun United eitthvað sakna portúgölsku stórstjörnunnar?

Ronaldo var ekki lengur fastamaður í liðinu og þetta var annar risaleikurinn á stuttum tíma þar sem hann þurfti að sætta sig að vera ónotaður varamaður.

Tölfræðingar ESPN reiknuðu það líka út að United liðið er miklu betra án Ronaldo í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Liðið hefur aðeins fengið 0,5 stig að meðaltali í þeim deildarleikjum sem Cristiano Ronaldo hefur byrjað en er með 2,25 stig að meðaltali í leik þegar Ronaldo er ekki í byrjunarliðinu. Á þessu er mikill munur og kannski skiljanlegt að Ten Hag þurfi ekki á einum besta knattspyrnumanni sögunnar að halda.

Ronaldo hjálpaði reyndar til við að bæta seinni töluna þegar hann kom inn á sem varamaður á móti Everton og skoraði þá sigurmarkið.

Ronaldo hefur einnig spilað 351 af 360 mögulegum mínútum í Evrópudeildinni og þar hefur United liðið unnið þrjá af fjórum leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×