Sport

Einn besti hlaupari NFL deildarinnar fær nýtt heimili á miðju tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian McCaffrey sést hér á ferðinni með boltann í leik með Carolina Panthers.
Christian McCaffrey sést hér á ferðinni með boltann í leik með Carolina Panthers. AP/Ashley Landis

Christian McCaffrey hefur spilað sinn síðasta leik með Carolina Panthers því NFL félagið skipti í gær sinni langstærstu stjörnu til Kaliforníu.

McCaffrey sem hefur verið lengi í hópi bestu hlaupara NFL-deildarinnar er nú orðinn leikmaður San Francisco 49ers.

49ers liðið ætlar sér stóra hluti á þessu tímabili og þessi skipti ættu að auka bitið í sóknarleiknum til mikilla muna.

San Francisco liðið sendi í staðinn valrétti til Panthers en forráðamenn þess félags eru farnir að horfa til framtíðar og ráku nýverið þjálfarann Matt Rhule. Útherjanum Robbie Anderson var líka skipt til Arizona.

49ers þarf reyndar að horfa á eftir fjórum valréttum til Panthers en þeir eru í annarri, þriðju og fjórðu umferð í næsta nýliðavali og svo í fimmtu umferð árið 2024.

McCaffrey fær nú að fara aftur heim til Kaliforníu fylkis þar sem hann var í háskóla. McCaffrey lék með háskólaliði Stanford Cardinalsfrá 2014 til 2016.

McCaffrey gæti spilað sinn fyrsta leik sem leikmaður San Francisco 49ers á móti Kansas City Chiefs um helgina en sá leikur er í beinni á Stöð 2 Sport 2 klukkan 20.20 á sunnudagskvöldið.

McCaffrey hefur verið mikið meiddur en þegar hann er leikfær þá er án vafa einn allra besti hlaupari deildarinnar.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×