Enski boltinn

Ronaldo segir sorrí: „Stundum missirðu þig í hita augnabliksins“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Framtíð Cristianos Ronaldo hjá Manchester United er í óvissu.
Framtíð Cristianos Ronaldo hjá Manchester United er í óvissu. getty/Alex Pantling

Cristiano Ronaldo hefur beðist afsökunar á að hafa strunsað til búningsherbergja áður en leik Manchester United og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni lauk.

Ronaldo var ónotaður varamaður í leiknum og var augljóslega ekki sáttur við það hlutskipti sitt því áður en lokaflautið gall fór hann til búningsherbergja. Samkvæmt fjölmiðlum á Englandi neitaði Portúgalinn að koma inn á. United sendi svo frá sér tilkynningu í gær um að Ronaldo yrði ekki í leikmannahópi liðsins gegn Chelsea á laugardaginn.

Ronaldo hefur nú beðist afsökunar á uppákomunni gegn Tottenham og segir að það hafi gerst í hita augnabliksins. „Í þeim liðum sem ég hef verið í hef ég alltaf reynt að sýna gott fordæmi fyrir yngri leikmenn. Það er ekki alltaf hægt. Stundum missirðu þig í hita augnabliksins,“ skrifaði Ronaldo á Instagram.

Hann sagðist ætla að halda áfram að leggja sig allan fram á æfingum, styðja við samherja sína og vera tilbúinn þegar kallið kemur í leikjum.

Ronaldo hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði United á tímabilinu og aðeins skorað tvö mörk. Á síðasta tímabili var hann markahæsti leikmaður liðsins með 24 mörk í öllum keppnum.

United vann leikinn gegn Tottenham, 2-0, og er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Með sigri á Chelsea á laugardaginn kemst liðið upp fyrir bláliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×