Enski boltinn

Sagðist vilja taka Ronaldo hálstaki fyrir að strunsa inn í klefa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo kom ekkert við sögu í sigri Manchester United á Tottenham.
Cristiano Ronaldo kom ekkert við sögu í sigri Manchester United á Tottenham. getty/Alex Pantling

Sérfræðingar Amazon Prime voru lítt hrifnir af uppátæki Cristianos Ronaldo að fara til búningsherbergja áður en leikur Manchester United og Tottenham var búinn. Einn sérfræðinganna sagðist vilja taka Ronaldo hálstaki.

Ronaldo var ónotaður varamaður í 2-0 sigri United. Portúgalinn var greinilega ekki sáttur með hlutskipti sitt og strunsaði til búningsherbergja áður en leikurinn var flautaður af. Uppátæki Ronaldos vakti mikla athygli og þótti frekar taktlaust enda var United að spila sinn besta leik á tímabilinu.

„Ég myndi sennilega vilja taka hann hálstaki og spyrja hvað hann væri að gera,“ sagði Dion Dublin, fyrrverandi leikmaður United, sem var sérfræðingur Amazon Prime á leiknum á Old Trafford.

„Þetta er ótækt. Ég dýrka Ronaldo, ber mikla virðingu fyrir og finnst að hann eigi að spila meira. En leikurinn var enn í gangi og liðsfélagar hans að spila. Með þessu sagði hann bókstaflega að honum væri sama. Hann gerði mistök með þessu.“

Þegar Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, var spurður út í uppákomuna með Ronaldos sagðist hann ætla að takast á við það á morgun [í dag].

Fred og Bruno Fernandes skoruðu mörk United í leiknum í gær. Liðið hefur fengið sjö stig í síðustu þremur leikjum í ensku úrvalsdeildinni, eftir tapið slæma fyrir Manchester City, 6-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×